139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Samkvæmt nýlegri könnun vilja um 60% landsmanna skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil á næstu árum. Kjósendur Framsóknarflokksins eru jákvæðastir gagnvart krónunni.

Frú forseti. Ég óttast að kjósendur annarra flokka sjái upptöku t.d. evrunnar sem eina möguleikann út úr skuldafangelsinu. Ef krónunni verður skipt út fyrir evru á núverandi gengi verður lítið úr skuldum fólks og laun munu smám saman hækka og nálgast laun í evrulöndunum. Eignir Íslendinga verða jafnframt lítils virði og því hætta á að lífeyrisgreiðslur muni ekki hækka jafnhratt og laun. Stöðugt er klifað á því að Íslendingar losni ekki við verðtrygginguna nema að taka upp annan gjaldmiðil, tvær krónur eru í landinu, önnur verðtryggð og hin óverðtryggð. Þetta vandamál er auðvelt að leysa með því að verðtryggja hina óverðtryggðu krónu eða einfaldlega launin í landinu. (BirgJ: Heyr, heyr.) Í gildi eru verðtryggðir lánasamningar sem munu ekki hverfa við upptöku evrunnar.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér ástæðum þess að kjósendur Framsóknarflokksins eru almennt sáttari við krónuna en aðrir og spyr því formann flokksins hvernig hann skýri það. Getur verið að framsóknarfólk leggi meiri áherslu á atvinnu en stöðugleika, að framsóknarfólk sjái að ekki er pólitískt raunhæft að taka upp evruna og að framsóknarfólk viti að evrópskir bankar lána ekki lengur vandræðalöndum lán með lágum vöxtum? Vextir munu því lítið lækka við upptöku evrunnar.