139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:58]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir orð hans og vil hér með að þakka honum fyrir að senda okkur skýrsluna, það var mjög gott að fá hana þó við hefðum getað útvegað okkur hana eftir öðrum leiðum.

Nú hefur hv. þingmaður lýst því yfir að hann vilji gjarnan fara í stórar og miklar sameiningar sem út af fyrir sig getur verið gott. Ég geri ráð fyrir að hann sé mjög ánægður með sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í velferðarráðuneyti sem hlýtur að geta skapað ákveðið hagræði, bæði faglega og fjárhagslega. Mig langar því að spyrja hv. þingmann, af því að honum hefur líka verið tíðrætt um hvað eftirlit skipti miklu máli, hvernig honum lítist á að búa til deild eða stofnun sem væri einhvers konar eftirlitsstofnun velferðarmála. Hún hefði þá í raun og veru ekki bara eftirlit með heilbrigðismálum heldur hugsanlega einnig málefnum fatlaðra, aldraðra og öðru slíku. Væri ekki mjög vel til fallið að reyna að búa til stóra deild um það?

Hv. þingmaður hefur líka rætt mjög mikið um fjárhagslegan ávinning af sameiningu. Mig langar til að spyrja hann hvort honum finnist faglegur ávinningur ekki skipta máli líka.

Svo langar mig til að spyrja hann mjög beinnar spurningar: Finnst hv. þingmanni að við eigum að bíða í 17 ár eftir breytingu sem tengist landlækni vegna þessa húsaleigusamnings sem er í gildi?