139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi áður farið með það fyrir mig hversu oft stjórnarskránni hefur verið breytt, sjö sinnum. En við erum ekki og höfum ekki verið sammála um það hingað til hve miklar breytingar á stjórnarskránni eru nauðsynlegar. Ég geri ekki ráð fyrir að við komumst að neinu samkomulagi um það í dag.

Stjórnlagaráð er auðvitað annað fyrirbrigði en stjórnlagaþing. Það hvílir á öðrum grunni. Það verður kosið af Alþingi, forseti kallar fólkið til starfa að beiðni Alþingis. Í þingsályktunartillögunni er útlistað, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi lesið, hvaða verkefni stjórnlagaráðinu er falið. Það er sama verkefni og stjórnlagaþinginu var falið vegna þess að við leggjum það til að ráðinu verði falið að endurskoða og gera tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það er sama verkefni en hvílir á öðrum grunni.