139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleymdi áðan að nefna það að ég er sammála því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að það þarf að finna lausn á þessu máli. Við hófum þessa vegferð og verðum því að finna lausn á því. Við erum svo kannski ósammála um hvaða lausn sé best í málinu.

Það sem kom fram undir lokin í svari hv. þingmanns er einmitt það að við verðum að hafa frið um þá sem starfa að þessu. Nú er það svo að úr því að þessi leið er farin þá sýnist mér að ekki verði friður um þessa framkvæmd og um þessa nefnd, því miður. Ég get alla vega ekki sætt mig við að þeir ágætu einstaklingar sem þarna eru eigi meiri rétt á að sitja þarna og taka þátt í þessari vinnu en einhver hér inni eða hver annar. Þetta ágæta fólk bauð sig fram, aðferðafræðin brást. Þetta var dæmt eða ekki dæmt, (Forseti hringir.) úrskurðað ógilt, sama hvort það er kallað, og því hafa þessir einstaklingar ekki meiri rétt til að sitja þarna en einhverjir aðrir.