139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

hækkanir verðtryggðra lána.

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að ræða sambærileg mál og hv. þm. Bjarni Benediktsson og hæstv. forsætisráðherra ræddu áðan en þó með áherslu á hliðaráhrifin af þeim málum sem eru gífurlega mikil, áhrifin á skuldir heimilanna. Í Morgunblaðinu í morgun kom nefnilega fram að á síðustu tveimur vikum hefðu skuldir íslenskra heimila hækkað um 6 milljarða kr. eingöngu vegna hækkana á eldsneytisverði. 6 milljarðar kr. eru kunnugleg tala. Það er akkúrat það sem ríkisstjórnin hafði til málanna að leggja eftir tveggja mánaða setu svokallaðra reiknimeistara uppi í Þjóðmenningarhúsi eftir að lá við byltingu utan við húsið. Þá settust menn niður við að reikna út hvað gera mætti fyrir heimilin, hvernig leysa mætti vanda þeirra. Niðurstaðan varð sú að gera það sem bankarnir höfðu þegar boðað og margir voru byrjaðir á, reyndar höfðu sumir gengið lengra, að leggja til viðbótar 6 milljarða kr., sem menn höfðu reyndar ekki fundið þá og hafa kannski ekki enn. Á tveimur vikum hafa þessir 6 milljarðar væntanlega farið fyrir lítið eingöngu vegna hækkandi eldsneytisverðs.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er ekki orðið tímabært að ríkisstjórnin fari að huga að því hvaða áhrif allar þessar skattahækkanir og verðlagsþróun hafa á stöðu heimilanna, bæði í beinum útgjöldum en líka á skuldastöðu þeirra?

Ríkisstjórnin hefur nú hækkað álögur á eldsneyti fjórum sinnum á rúmlega tveimur árum. Er ekki mál að linni og tími til kominn að snúa þeirri þróun við, ekki bara til að fólk hafi betur efni á því að komast á milli staða heldur líka til þess að reyna að vinna á skuldum heimilanna sem eru meginvandamál samfélagsins í dag í stað þess að ríkisstjórnin haldi stöðugt áfram að hækka skatta á nánast allar neysluvörur og hækka þar með kröfurnar á heimilin um leið?