139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er algerlega meingallað fyrirkomulag. Það hefur orðið til þess að hér eru nær því á hverju þingi skipaðar sérnefndir um stjórnarskrármálefni vegna þess að það er skylt að forminu til, en þær nefndir hafa sjaldnast komið saman. Ég held hins vegar að við getum endurskoðað stjórnarskrána, eða stjórnlagaþing geti endurskoðað stjórnarskrána og þjóðin geti greitt um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef hún færi fram beint og milliliðalaust frá stjórnlagaþinginu til þjóðarinnar, þó að stjórnlagaþingið yrði að vísu aðeins ráðgefandi, væri Alþingi að meira eða minna leyti bundið af þeirri niðurstöðu. Ég fæ illa séð að menn hér mundu ganga gegn henni.

Hinu má svo velta fyrir sér hvort slík atkvæðagreiðsla eigi að vera um stjórnarskrá sem heild eða hvort almenningur eigi þar að fá tækifæri til að taka afstöðu til hvers einstaks efnisatriðis í þeim breytingum (Forseti hringir.) sem ráðgerðar væru á stjórnarskránni. Það væri auðvitað langlýðræðislegast.