139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætisumræða. Sjávarútvegurinn varð auðlind þegar hann varð takmarkaður. Það er takmörkunin sem bjó til verðmætið en ekki fiskurinn sjálfur. Ef hér hefði verið veitt og allir mátt veiða hefði fiskurinn líklega klárast og þá hefði þetta ekki verið nein auðlind. Það var takmörkunin sem bjó til auðlindina og hið sama á við um tíðnisviðið. Ég veit ekki hvort menn telja tíðnisvið náttúruauðlind. Það byggir náttúrlega algjörlega á hugviti mannsins því að fyrir 100 árum vissi enginn hvað þetta fyrirbæri var, tíðnisvið á rafsegulbylgjum. Nú er orðin heilmikil auðlind að fá úthlutað tíðnisviðum á rafsegulbylgjum fyrir alls konar samskipti. Þetta verður væntanlega auðlind og sennilega ekki sú minnsta þegar fram líða stundir. Þetta finnst mér að þurfi að ræða áður en menn fara að tala um að setja ákvæði um auðlindir inn í stjórnarskrá. Þar með er ég ekki að segja að ekki eigi að vera ákvæði um auðlindir í stjórnarskránni. Ég lít hins vegar á stjórnarskrána fyrst og fremst sem mannréttindapakka sem á að vera varanlegur. Þetta er ekki nokkuð sem menn eru að gera eða breyta frá degi til dags. Ég minni t.d. á boðorðin tíu sem hafa staðist tímans tönn, a.m.k. sum þeirra nokkuð vel. Mér finnst að stjórnarskráin eigi að vera svipuð. Þetta eru mannréttindi fyrst og fremst, síðan (Gripið fram í: … varð til.) búum við til ríki til að viðhalda og gæta mannréttindanna. Ég held að ríkið sé til þess að gæta mannréttinda en ekki öfugt.

Mér finnst þessi umræða um stjórnarskrána mjög brýn. Ég tel mjög brýnt að breyta stjórnarskránni. Ég geri ráð fyrir að þegar allt kemur til alls munum við sjá eitt stykki stjórnarskrá sem menn greiða atkvæði með eða á móti.