139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Pétur H. Blöndal séum ekki langt hvor frá öðrum þegar við erum að ræða um breytingar á stjórnarskránni og hvernig þær eigi að vera. Ég er sammála hv. þingmanni um að stjórnarskráin sé gríðarlega mikilvægt mannréttindaplagg, eins og hv. þingmaður orðaði það. Þegar við tölum um stjórnarskrána sem mannréttindaplagg má færa rök fyrir því, eins og hv. þingmaður gerði, að auðlindir okkar sem eru takmarkaðar að vissu leyti séu auðlindir af því að þær eru takmarkaðar. Eru þá ekki mannréttindi að við skýrum í stjórnarskrá hverjir eiga þessa takmörkuðu auðlind þannig að aðgengi að henni sé skilgreint með þeim hætti að eignarhaldið sé í höndum þjóðarinnar, ríkisins, og síðan uppfylli einhverjir aðilar, hvort sem það er í sjávarútvegi, orkuauðlindum eða hvað það er, skilyrði til að fá leyfi, leigja sér, til að nýta auðlindina? Ég held að þetta fari saman þegar við tölum um mannréttindahugmyndirnar í stjórnarskránni, mannréttindaplaggið, og auðlindina.

Ég held að í sjálfu sér sé ekki miklu við þetta að bæta. Mín skoðun er sú að stjórnarskránni eigi ekki að breyta í upphafi hvers þings eða eitthvað slíkt, það á ekki að fara með þetta plagg út og suður, fram og til baka, eftir pólitískum hugmyndum eða dægursveiflunni. Þetta er grundvallarplagg í íslensku samfélagi. Það þarf að ríkja sem mest sátt um þær breytingar sem á því eru gerðar. Út af þeirri umræðu sem við erum í hér óttast ég að það verði ekki nein sátt um þá tilhögun sem hér er lögð til og það sem kemur út úr þeirri vinnu.