139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Hann tjáði virðingu sína fyrir Hæstarétti og að menn ættu að hlíta úrskurði hans. En jafnframt sagðist hann hafa gagnrýnt úrskurðinn og forsendur hans. Svo hefur hann svo mikinn áhuga á því að koma á stjórnlagaþingi, sem kunnugt er, að stjórnarskránni sé breytt af aðilum utan Alþingis. Það vill nú svo til að hann situr á stjórnlagaþingi nú þegar en hann ætlar ekki að nota þann vettvang. Hann styður sem sagt og flytur hér tillögu um stjórnlagaráð sem í rauninni setur upp nákvæmlega sömu stöðu og ef Hæstiréttur hefði ekki kveðið upp úrskurð sinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er ekki verið að sniðganga úrskurð Hæstaréttar? Er ekki verið að ganga fram hjá honum með því að búa til nákvæmlega sömu stöðu og hann dæmdi ógilda? Þetta er fyrsta atriðið.

Kosningaþátttaka var 36% og 500 manns voru í framboði sem gerði mér það alla vega erfitt að kjósa. Þegar ég var kominn yfir hundrað manns fór dálítið að sjóða á heilanum á mér. Þetta var eiginlega happa- og glappaaðferð við val á þessum 25 sem ég þurfti að velja úr 500. Ég spyr hann: Er það ekki enn meiri veiking á umboði stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) ef þetta fer hér í gegnum Alþingi með naumum meiri hluta og í mikilli andstöðu?