139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við lifum mjög merkilega tíma. Heimurinn er að minnka með almennum aðgangi almennings að netinu, rafrænum þýðingum, tengslasíðum og því sem við getum hreinlega kallað upplýsingabyltingu. Hún hefur gefið fólki aukið tækifæri til að mynda samstöðu og skapa gífurlegan þrýsting á stjórnvöld með tiltölulega friðsömum hætti þar sem best hefur gengið og jafnvel komið stjórnvöldum frá, en svo höfum við hörmulegri dæmi eins og Líbíu þar sem einræðisherra ræðst gegn eigin þjóð.

Peningar, vopn og olía eru banvæn blanda. Þegar saga þess heimshluta á 20. öld sem hér um ræðir er skoðuð má sjá að hin svokölluðu vestrænu lýðræðisríki hafa séð sér hag í því að halda ástandinu í þessum löndum óstöðugu, sér í lagi í olíuríkjunum. CIA hefur meira að segja sviðsett byltingar til að koma þjóðarleiðtogum frá sem þeim hugnast ekki lengur og meira að segja leigt til þess sirkusleikara.

Hagsmunum þeirra sem höndla með vopn og olíu fara aldrei saman með hagsmunum almennings í þessum ríkjum. Því megum við ekki gleyma. Við verðum í öllum þessum málum að hafa hagsmuni almennra borgara að leiðarljósi.