139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir kröftuga ræðu eins og hans er von og vísa. Hann kom með athyglisverða tillögu rétt í lokin, um að fengnir yrðu sjö borgarar úr hverju kjördæmi til að koma með drög að stjórnarskrá.

Í upphafi vil ég þó spyrja þingmanninn: Finnst honum ekki vera komið nokkurt tímahrak í þessa vinnu þar sem hér situr ríkisstjórn sem riðar til falls? Væri ekki skynsamlegt að sjö manna stjórnlaganefndin skilaði þeim gögnum, sem hún hefur nú þegar safnað til sín, t.d. niðurstöðum þjóðfundarins og öðru sem henni var falið að safna, beint til Alþingis og þau yrðu þá sett í frumvarpsdrög svo við þingmenn yrðum tilbúnir með frumvarp að stjórnskipunarlögum og breytingu á stjórnarskránni þegar kosningar yrðu? Tíminn er að renna út, ríkisstjórnin getur fallið á morgun og það væri óskandi.

Í öðru lagi, verði þessi leið ekki farin og ekki leið þingmannsins sem hann kynnti, fyndist honum ekki sanngjarnara gagnvart þeim 522 einstaklingum sem gáfu kost á sér til stjórnlagaþings, eyddu í það vinnu, fjármagni, tóku sér jafnvel frí úr vinnu, tóku út sumarfrí og annað, að hreinlega öll þessi nöfn yrðu sett í pott og dregin af handahófi nöfn 25 einstaklinga, 25 kennitölur, úr þeim potti í stað þess að fara þá leið sem er nú hér í þessari þingsályktunartillögu, að aðilar sem voru kosnir ólöglega fái að fara fram fyrir þá sem voru með þeim í framboði? Með þessu vísa ég m.a. til jafnræðisreglu.