139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ágreiningurinn stendur nú um formið og hvort sú aðgerð sem lögð er til sé skynsamleg. Ég hefði talið að það hefði átt að reyna auðvitað til þrautar að ná meiri samstöðu um það fyrirkomulag en hér er lagt til. Það er alls ekki lýðræðislegasta fyrirkomulagið og mér finnst menn alltaf horfa fram hjá þeirri einföldu staðreynd að með ógildingu á kosningunni hafa þeir 25 ágætu einstaklingar, sem eru margir hverjir örugglega hið mætasta fólk, ekki aðra stöðu en restin af þjóðinni í þessum skilningi. Þess vegna er alveg fráleitt og afkáralegt að leggja það til grundvallar þegar valið er í stjórnlagaráð rétt eins og Róbert Spanó og fleiri lagaprófessorar hafa bent á. Menn þurfa miklu ríkari efnislegar ástæður til að velja þá einstaklinga en hér eru lagðar til grundvallar og nú er lagt upp í mikla feigðarför sem er óðs manns æði þegar við fjöllum um grundvallarlög íslenska lýðveldisins. Gleymum því ekki að þó að íslenska stjórnarskráin hafi átt uppruna sinn í Danmörku var það Ísland (Forseti hringir.) sem féllst á þessa stjórnarskrá sem fullvalda ríki og menn eiga ekki að gera lítið úr því.