139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði að honum hefði þótt eðlilegt að fara þá leið sem kölluð er uppkosning. Það var samdóma álit þeirra sem voru í samráðshópnum að það þyrfti að gera ákveðnar, og sem ég kalla mjög tæknilegar, breytingar á frumvarpinu til stjórnlagaþings um kosninguna til að lenda ekki aftur í því nálarauga sem það er að Hæstiréttur metur kosninguna. En við skulum öll hafa það alveg á hreinu að Hæstiréttur segir hvergi að þessi framkvæmd, sem fór miður, hafi hugsanlega haft áhrif á úrslit kosninganna. Ég ætla bara að skjóta því að en annars ætla ég ekki að ræða ákvörðun Hæstaréttar.

Mig langar þá til að spyrja þingmanninn: Væri hann og flokksmenn hans tilbúnir til að gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á þessum lögum til að uppkosning geti farið fram um leið og þjóðaratkvæðagreiðsla 9. apríl?