139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Málið verður ekkert betra þó að hægt sé að tiltaka einhver önnur dæmi fyrir því að menn hafi ekki farið rétt með. Ég þekki ekki fordæmin í sögunni en ég skora á menn að upplýsa það ef það hefur áður þekkst að þingið hafi falið forseta sínum, að Alþingi Íslendinga hafi falið forseta Alþingis, að fara á yfirdrátt vegna samþykkta sinna. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir að þetta sé bull. Það er engin fjárheimild fyrir útgjöldum sem þessum, engin. Ég hef lesið tillöguna og ég hef lesið greinargerðina og ef hv. þingmaður hefði verið hér í salnum þegar ég flutti ræðu mína þá vitnaði ég til hennar. Það breytir ekkert þeirri staðreynd að það er hvergi neitt í lögum sem Alþingi hefur samþykkt sem heimilar forseta Alþingis að greiða kostnað vegna þessarar þingsályktunartillögu, það er hvergi og það stenst engin lög og ég dreg í efa að það standist stjórnarskrá.

Þess vegna segi ég enn og aftur — menn hlæja hér, hv. þingmenn, (Gripið fram í: Já.) þegar vitnað er til stjórnarskrárinnar. Já, já, það gefur kannski tóninn um það með hvaða hætti þessi sundraði meiri hluti er að umgangast þetta grunnplagg, menn hlæja að því þegar vitnað er til þessara þátta. Ég skil vel að það fari í fínni taugar á sumum hv. þingmönnum en þetta eru engu að síður staðreyndir. En mér finnst fulllangt seilst ef til þess er ætlast að forseti Alþingis greiði atkvæði með þessari tillögu því að þarna er beinlínis verið að setja hæstv. forseta í erfiða aðstöðu, ég tel að hann geti ekki greitt atkvæði með þessu.