139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að sú virðing sem við berum fyrir fræðimönnum á borð við Róbert Spanó og Ragnhildi Helgadóttur eigi að vera þannig að þeir fái að túlka orð sín sjálfir og við séum ekki að leggja þeim orð í munn.

Um afstöðu hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, og nokkurra í mínum flokki, a.m.k. hv. þm. Helga Hjörvars sem hér hefur talað, er það að segja að ég ber fullkomna virðingu fyrir henni. Ég hef ekki haldið því fram að þetta sé einfalt mál. Ég hef ekki haldið því fram að þetta sé besti kosturinn í skólabókinni en þetta er besti kosturinn í stöðunni að mínu áliti og þar er ég ósköp einfaldlega ekki sammála þeim hv. þm. Helga Hjörvar og Ögmundi Jónassyni sem ég nefndi áðan.

Það sem er kannski undarlegt miðað við skoðanamun í þessum tveimur flokkum og fleirum er að allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa eftir ítarlega rannsókn og athugun málsins, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson er besta dæmið um, lagt sig í framkróka og líma við að skoða úrskurð Hæstaréttar og finna þau rök sem þar komu fram fyrir því að þessi tillaga sé vond, allir 16 hafa komist að sömu niðurstöðu. Það er ekki mjög sennilegt að það sé vegna þess að menn hafi hugsað málið sjálfir heldur er það auðvitað þannig, forseti, að þessir menn hafa fengið þá skipun frá flokksforustunni að núna eigi að vera á móti ríkisstjórninni, núna eigi að spilla árangri búsáhaldabyltingarinnar, (Gripið fram í.) núna eigi að ganga í það að reyna að tryggja hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og þeirrar valdastéttar sem hann er ávöxtur af með því að vera á móti því að taka besta kostinn sem uppi er í stöðunni eftir úrskurð Hæstaréttar (Forseti hringir.) og synjun forsetans á Icesave-lögunum. (Gripið fram í.)