139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Segja má að allt þetta mál, þ.e. að breyta stjórnarskránni, hafi verið svakalega þungt í vöfum, þetta er svakalega erfið fæðing og eiginlega með ólíkindum hvað þetta er þungt í vöfum. Ferlið allt minnir mig svolítið á karlmann sem var á sínum tíma mjög vinsæll hjá kvenþjóðinni og margir spurðu hvernig stæði á því að hann félli ekki í freistni með allar þessa konur í kringum sig. Hann sagðist alltaf vera að velta þessu fyrir sér en kæmist alltaf að sömu niðurstöðu, þ.e. að konan hans væri nú illskást, eins og hann orðaði það. Það var merkilega til orða tekið og ég held að aðferðin sem hér er lögð á borðið og við fjöllum núna um, tillaga um skipun stjórnlagaráðs, sé illskásta aðferðin í stöðunni. Hún er alls ekki fullkomin en hinar aðferðirnar sem uppi eru í þessari stöðu eru það ekki heldur þannig að líklega er hún illskást, virðulegur forseti.

Varðandi forsöguna fór Framsóknarflokkurinn á sínum tíma, árið 2008, í mikið nefndarstarf og setti á fót nefnd til að skoða íbúalýðræði. Formaður hennar var Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður. Sú nefnd skilaði tillögu til flokksþings 2009 sem flokksþingið samþykkti. Hún gekk út á að við ættum að setja á stofn stjórnlagaþing sem kæmi fram með nýja stjórnarskrá og síðan kysi þjóðin um þessa nýju stjórnarskrá, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var því svokallað bindandi stjórnlagaþing.

Þetta varð ekki svona, virðulegur forseti. Við settum þetta hins vegar á oddinn í aðdraganda kosninga 2009 og þegar við studdum minnihlutastjórnina á þeim tíma var þetta eitt af skilyrðunum fyrir stuðningnum. Við vorum því mjög einbeitt í þessum vilja okkar. Miklar umræður urðu í þinginu og fljótlega kom í ljós að einn flokkur var mjög andsnúinn þessari hugmyndafræði og það var Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur frá upphafi verið andsnúinn bindandi stjórnlagaþingi og verið alveg heill í því, má segja, og líka ráðgefandi stjórnlagaþingi. Niðurstaðan varð sú, í kjölfar þess að beitt var mjög miklu málþófi og það var Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð í því málþófi, að samþykkja ráðgefandi stjórnlagaþing.

Sjálfstæðisflokkurinn vildi þá fara aðra leið, þingið ætti að skipa níu manns í nefnd til að fara í það verkefni að undirbúa stjórnarskrárbreytingar. Það er svolítið gamla lagið má segja og sú sem hér stendur telur að það hafi ekki gefist sérstaklega vel hingað til. Sjálfstæðismenn sátu hjá í atkvæðagreiðslunni, nema hv. varaþingmaður Óli Björn Kárason, að mig minnir, sem greiddi atkvæði gegn.

Þegar við stóðum í þessu öllu vann Sjálfstæðisflokkurinn samt ágætlega að því að breyta málinu í nefndarstarfinu og hv. þm. Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson fóru í atkvæðaskýringar þar sem þeir komu því á framfæri að Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið með tillögur um að bæta málið. Menn voru því allir að reyna sitt í þessari vinnu.

Síðan var kosið til stjórnlagaþings. Það var auðvitað allt með sérstökum hætti, það kom í ljós að meira en 500 manns buðu sig fram enda þurfti ekki nema 30 til 50 meðmælendur, ef ég man rétt, á bak við hvern frambjóðanda til að hann gæti talist gildur. Frambjóðendurnir urðu því mjög margir. Það voru í kringum 84 þúsund manns sem kusu, sumir segja að það sé lítið, aðrir mikið. Kjósendurnir voru alla vega 84 þúsund og úr varð 25 manna listi eða 25 manna þing.

Ég held að ekki hafi margir átt von á því að Hæstiréttur úrskurðaði á þá leið að kosningin væri ógild. Ég hef, virðulegur forseti, lesið úrskurð Hæstaréttar og hann bendir á ýmsa galla og það er alveg réttmætt sem þar kemur fram, gallar voru á kosningunni. En sú er hér stendur getur með engu móti séð að þeir gallar hafi valdið því að einhvers konar svindl hafi verið í kosningunni. Þetta get ég ekki sannað og mun aldrei geta sannað en miðað við úrskurðinn sé ég samt ekki að hægt sé að færa rök fyrir því að það hafi verið svindlað og einhverjir aðrir hefðu átt að ná kjöri ef kosningarnar hefðu farið með réttum hætti fram. Mér finnst þetta skipta alveg gríðarlega miklu máli.

Þess vegna tel ég að sú aðferð sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir, þ.e. að skipa þessa 25 í stjórnlagaráð, geti gengið upp. Það tóku 84 þúsund manns þátt í kjörinu, það er mun meiri breidd en einhverjir 63 þingmenn þó að við séum þetta svokallaða fulltrúalýðræði og við munum fá þetta á endanum hvort eð er til okkar frá stjórnlagaráðinu. En það má segja að nokkur breidd sé á bak við þá 25 sem voru kjörnir í kosningunni sem var reyndar úrskurðuð ógild.

Núna eru kannski fimm lausnir í stöðunni. Í fyrsta lagi er hægt að gera það sem er lagt upp með í þingsályktunartillögunni, skipa þessa 25. Það eru kostir við þá aðferð en líka gallar. Auðvitað er þetta ekki í samræmi við úrskurð Hæstaréttar en það er þó hægt að færa full rök fyrir því að þetta sé skást í stöðunni. Margir, 84 þúsund manns, kusu þó þessa fulltrúa og það er ekkert sem bendir til þess að aðrir hefðu verið kosnir þó að atkvæðagreiðslan hefði farið öðruvísi fram.

Einnig er hægt að fara í uppkosningu og það er leið sem ég útilokaði alls ekki á sínum tíma. Ég tel reyndar að sú aðferð væri óheppileg miðað við hvernig málin eru í dag, ég held að færri tækju þátt en tóku þó þátt í fyrri kosningu og óttast líka að landsbyggðarfólk mundi ekki mæta til kjörstaða nema í litlum mæli vegna þess hve fáir komust að frá landsbyggðinni í fyrri kosningu, því miður.

Við gætum líka ákveðið að fara í þetta allt upp á nýtt, breyta lögunum í grundvallaratriðum og hafa kosninguna í kjördæmum eða með öðrum hætti. Ég tel að það mundi valda talsvert miklum töfum á málinu og er ekki viss um að við mundum sameinast um algjörlega nýtt kerfi.

Við gætum skipað stjórnlaganefndina sem nú þegar hefur verið að störfum og látið hana vinna verkið, þá sjö manns sem við höfum nú þegar skipað. Í fimmta lagi gætum við kosið að gera ekki neitt því eftir á að hyggja teljum við bara að þetta sé vond hugmynd.

Ég er ekki til í neitt af þessu í dag nema helst að samþykkja þingsályktunartillöguna sem hér liggur á borðinu, þ.e. að skipa þessa 25, fá afurð þeirra hér inn og vinna úr henni í þinginu. Það er líka grundvallaratriði að frá hópnum mun koma ráðgefandi skjal, ekki bindandi. Því tel ég að þessi leið sé fær. Það væri hins vegar miklu verra ef aðferðin væri bindandi en ég hef rakið af hverju svo er ekki.

Ég velti þessum leiðum fyrir mér og forgangsraðaði þeim og setti í fyrsta sæti að skipa þessa 25 manns og uppkosningu í annað sæti. Þetta er því staðan, virðulegur forseti. Þetta er ekki góð staða. Ég tel hins vegar að við eigum ekki að hætta við verkefnið, ég tel að við eigum að treysta á þá sem náðu kjöri í kosningunum. Þó að Hæstiréttur hafi úrskurðað þær ógildar getur þingið tekið sér það vald að segja: Af því að mjög ólíklegt er að svindlað hafi verið treystum við okkur til að skipa þessa 25, þeir hafa þó þetta mikið fylgi á bak við sig, mikinn stuðning frá þjóðinni. Ég tel að þetta sé stór hópur, 84 þúsund manns, sem tók þátt í valinu og af því að þetta er ráðgefandi getum við notað þessa aðferðafræði.

Ég mun því styðja þingsályktunartillöguna sem hér liggur fyrir. Reyndar var fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson einnig á þessari aðferð þó (Forseti hringir.) að hann sé ekki flutningsmaður tillögunnar.