139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

eftirlit menntamálaráðuneytisins með samningum.

[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um lærdóm af þeim skýrslum og úttektum sem Ríkisendurskoðun hefur unnið á undanförnum missirum þar sem gerðar hafa verið verulegar athugasemdir við þá samninga og eftirfylgni með samningum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert. Því er til að svara að við höfum litið á þetta sem tvíþættan lærdóm, þ.e. annars vegar að skoða samningagerðina sjálfa, hvernig hún er uppbyggð, hvort nægilega nákvæmlega sé staðið að málum, hvernig orðalagi er farið og hvort settir eru inn nægilegir fyrirvarar til að hið opinbera geti sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi. Þegar kemur hins vegar að eftirfylgninni sjálfri skiptir mjög miklu máli hvernig staðið er að samningnum í upphafi.

Það sem við höfum þegar gert er að fara yfir þá samninga sem við erum með við einkarekna aðila, bæði háskóla, framhaldsskóla og aðrar stofnanir, og við höfum lagt fram ný drög til kynningar. Við höfum sent einkareknum framhaldsskólum þessi drög til kynningar og fengið athugasemdir frá þeim og erum að fara í sambærilegt ferli með einkarekna háskóla. Við erum í raun að undirbúa það að samningurinn sjálfur nýtist sem stjórntæki, sem það tæki sem hann á að vera til að ráðuneytið geti á hverjum tíma haft eftirlit, kallað eftir þeim upplýsingum sem þarf og haft aðgang að slíkum upplýsingum.

Nú erum við búin að fá fyrstu athugasemdir frá viðsemjendum okkar í hópi einkarekinna framhaldsskóla. Ég vona að þetta verði til þess að vinnulagið verði betra í framtíðinni þó að aldrei sé hægt að koma í veg fyrir öll mistök í þessum efnum.