139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka þetta mál upp, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem varð í samgöngunefnd á fimmtudaginn var. Það sem hægt er að gera til að styrkja innanlandsflugið er að draga úr álögum. Það kom mjög skýrt fram á fundi samgöngunefndar þegar ræddar voru þær auknu álögur sem búið er að setja á innanlandsfélögin. Það er mjög skýrt hvernig hægt er að standa að því að draga úr álögum á innanlandsflugið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Í fyrsta lagi kom fram á þessum fundi að jafnvel stæði til að hækka gjaldskrána vegna lendingargjalda á sjúkraflugi og hugmyndir væru um allt að 1.200% hækkun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki öruggt að það verði ekki gert?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað um Reykjavíkurflugvöll, hvort hann telji raunhæft að færa hann í ljósi efnahagsástandsins á næstu árum. Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að hans mati að færa innanlandsflugið til Keflavíkur og byggja síðan upp Landspítala – háskólasjúkrahús í Vatnsmýrinni?