139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Lausnir þingmanna á samgöngumálum eru hvað greiðastar og auðveldastar hér í ræðustól. Það er ekki skemmtilegt fyrir þann sem gegnir innanríkisráðherrastörfum á hverjum tíma. Hins vegar er klént svar að segja að það séu bara tveir kostir fyrir hendi í samgöngumálum suðvestanlands, annaðhvort að íbúar hér borgi vegatolla einir Íslendinga eða að ekkert gerist. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að hugsa þetta mál betur og koma fram með fleiri kosti. Ef til þarf fleiri fundi en þann eina sem ég veit af sem var með sveitarstjórnarmönnum í Suðurkjördæmi og samgöngunefndarmönnum á þinginu — ég var þar ekki sem Reykvíkingur eða þingmaður hér á svæðinu heldur sem samgöngunefndarmaður — þá það. Þá erum við alveg örugglega reiðubúin til þess.

Auðvitað leysast málin ekki hér í ræðustólnum, forseti, eða með því að við borgum þetta einhvern tímann seinna eins og samflokksmaður hv. fyrirspyrjanda (Forseti hringir.) sagði hér í umræðunum um daginn.