139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

stúdentspróf.

522. mál
[18:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Loksins þegar færist ágreiningur í umræðuna hefur því miður aðeins fækkað í salnum. En ég segi að við verðum auðvitað að horfast í augu við þann 200 milljarða halla sem var á ríkissjóði fyrir ekki mjög mörgum árum, við getum ekki horft fram hjá því. Ég hefði gjarnan viljað segja: Ekki skera nokkra krónu niður í menntakerfinu. Það hefðu væntanlega fleiri getað sagt um heilbrigðiskerfið, um félagslega kerfið, um atvinnuleysistryggingakerfið. (ÞKG: … hagræða með öðrum hætti.) Það sem við höfum hins vegar horft á í þeim hagræðingaraðgerðum sem við höfum farið í, hvort sem það hefur verið í framhaldsskólum eða háskólum, er að standa vörð um gæði skólastarfsins og reyna að skipuleggja aðgerðir þannig að við vinnum ekki skaða á skólakerfinu. Vissulega er erfitt að fara í gegnum svona efnahagstímabil og ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá því, ekki sé hægt að halda því fram að það sé eitthvert sérstakt skemmtiefni. Ég verð að leyfa mér að ítreka það og þá hlýtur auðvitað fyrsta markmiðið að vera að skerða ekki gæðin og reyna einmitt að viðhalda metnaði í skólastarfi.

Hvað varðar námstímann þá hef ég hreinlega velt því upp hvort það hefði verið rétt á sínum tíma og hvort það sé rétt enn þá, til að ná þeirri heildstæðu sýn sem ég held að við séum sammála um að við viljum hafa, að við ættum að hafa samhliða þessari löggjöf ein lög um skólakerfið til að tryggja betur flæðið milli skólastiga. Við höfum fundið fyrir núna, m.a. af hálfu skólamálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, áhuga á að skoða þessi mál í meira samræmi, þ.e. námstímann til stúdentsprófs út frá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og ég hef fullan hug á því að setjast niður með sambandinu og skoða þessi mál í því samhengi. Ég get sagt að það vantar ekki metnaðinn í þessum efnum en við verðum líka að horfast í augu við veruleikann. Ég vil taka það fram líka að skólarnir hafa sýnt ótrúlegt frumkvæði, m.a. að nýjum námsleiðum til framhaldsskólaprófs, og hafa uppfyllt lagaákvæði fræðsluskyldu með fjölbreyttara námsframboði. (Forseti hringir.) Við eigum eftir að sjá fleiri dæmi um það, (Forseti hringir.) vonandi strax næsta vetur í ýmsum skólum. Þannig að við erum að sjá þróun þó að hún hafi kannski ekki verið með sama hraða og ætlað var.