139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa komið upp að þessar tölur eru á margan hátt mjög athyglisverðar. Í fyrsta lagi hefði maður haldið að tala þeirra sem hafa látið af störfum væri jafnvel hærri. Nú er rétt að taka fram að ef til vill ná þessar tölur ekki endilega bara til þeirra sem sagt hefur verið upp störfum sakir hagræðingaraðgerða heldur getur það verið af margvíslegum öðrum ástæðum. Fækkunin nemur 545 manns og þar af er hlutur kvenna langsamlega drýgstur, sem hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um framhald þeirra aðgerða sem við þurfum væntanlega að grípa til fjárlagaárið 2012 þar sem við erum farin nú þegar að draga upp mynd af því ári, sem við skulum allra hluta vegna vona að verði öllu skárra en yfirstandandi ár í aðhaldsaðgerðum.

Engu að síður er ljóst að fara þarf út í frekari aðhaldsaðgerðir og þá tel ég brýnt og hef sagt það áður að hlutur kvenna verði ekki með slíkum hætti að þær beri uppi meginhluta hagræðingarinnar hjá hinu opinbera. Það þarf að hugsa sérstaklega til kvennastarfa í þessu efni en jafnframt þarf að hugsa til þeirra leiða sem eru eðlilegar og sanngjarnar á tímum sem þessum. Þar horfum við til sameiningar stofnana, við horfum til sameiningar ráðuneyta og enda þótt þetta séu ekki fjölmennustu vinnustaðir á landinu er eðlilegt að þeir taki a.m.k. á sig svipaða hagræðingarkröfu og gert er tilkall til á öðrum vígstöðvum.

Ég spyr hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvar hann sjái færi til þess að skera frekar niður. Er það á þeim viðkvæmu stofnunum sem ég nefndi í fyrra innleggi mínu, í menntamálum og heilbrigðismálum, (Forseti hringir.) eða er það ef til vill á öðrum stöðum þar sem við munum kannski líta okkur nær?