139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:52]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála skilningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að ekkert komi í veg fyrir að innanríkisráðherrann geti látið útbúa slíkt kynningarefni. Hann hefur haft um það orð að hann muni ekki gera slíkt en ég átti samtal við hann í gær þar sem hann virtist kannski vera kominn á einhverja aðra skoðun. Við munum náttúrlega hvetja til þess með því að flytja þingsályktunartillögu Hreyfingarinnar á morgun sem kveður beinlínis á um það að hann eigi að láta útbúa kynningarefni um Icesave-kosninguna. Sú þingsályktunartillaga fær vonandi góðan framgang í þinginu en eins og ég sagði áðan er einnig búið að boða innanríkisráðherra á fund forsætisnefndar og formenn þingflokka í hádeginu á morgun þar sem einmitt á að fara yfir þetta sérstaka mál, kynninguna á Icesave-málinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl.

Ég tel því að kynningarmálin séu að mörgu leyti að komast í réttan farveg eða ég vona það að minnsta kosti. Það er mikilvægt að halda því til haga á fundinum á morgun að innanríkisráðherrann láti útbúa veglegt og ítarlegt kynningarefni um málið. Ég held að við séum á sama máli um það.