139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er ég ekki með mjög langa þingreynslu og er ekki lagamenntaður en hef reynt að vanda mig í störfum mínum sem formaður allsherjarnefndar. Það er svo að við getum fengið á fundi nefndarinnar sérfræðinga í lögum, lagaprófessora, til að fulltrúalýðræðið geti virkað, þannig að svona venjulegur maður eins og ég geti skilið þau fræði og fengið aðgang að okkar færustu sérfræðingum í þessum efnum. Þegar við fáum lagaprófessora á fund allsherjarnefndar er það gert til að fá álit þeirra á lagatæknilegu efni, á því hvort tiltekin leið sem ákveðið hefur verið á pólitískum forsendum að fara standist þann lagaramma sem við lifum og hrærumst í og höfum samþykkt að gera.

Niðurstaða þeirra lagaprófessora sem komu á fund okkar var ótvírætt sú að þessi leið væri lagatæknilega fær. Það hvað þeim finnst svo um anda þeirrar gjörðar eða um pólitískt eðli hennar er vissulega sjónarmið sem ber að taka tillit til, en það er ekki ástæða þess að þeir eru fengnir á fund nefndarinnar, þ.e. við fáum ekki lagaprófessorana, með fullri virðingu fyrir þeim, á fund allsherjarnefndar til að þeir geti gefið okkur álit á skoðun sinni á pólitískum álitaefnum eða spjalla við þá um daginn og veginn. Við erum að nýta okkur sérstaklega sérfræðikunnáttu þeirra til að þeir geti gefið okkur álit og vegvísi um hvað teljist eðlilegt út frá lagalegum forsendum. Ekkert kom fram í störfum allsherjarnefndar sem (Gripið fram í: Hvað þótti þeim eðlilegt?) benti til þess að þessi leið sé ekki lagalega fær.