139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[11:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og þakka umhverfisnefnd fyrir að hafa farið gaumgæfilega í gegnum afleitt frumvarp sem kom hér inn. Það var uppfullt af mjög svo flókinni stjórnsýslu, málfræðilegum undarlegheitum og ýmsu fleira, t.d. vatnshlotum, og hefur orðið umræða um það. Ég hvet nefndina til að fara aftur gaumgæfilega yfir það sem kemur út úr atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Mér sýnist flestar breytingarnar vera til bóta, þetta er augljóslega ekki forgangsmál í íslensku samfélagi þegar við erum að reisa atvinnulíf úr efnahagsrústum bankahruns. Þetta er augljóslega ekki mál sem sveitarfélögin hrópa á að fá í fangið ásamt þeim kostnaði sem því fylgir. Þess vegna þarf þingið að fara vel yfir málið áður en við sendum það út sem lög. Það er ekki forgangsmál og við ættum að velta því fyrir okkur hvort við getum ekki sinnt einhverju öðru þarflegra í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)