139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[11:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er í eðli sínu gott og framsýnt. Það stendur til að fækka stofnunum. Ég gerði fyrirvara við málið á sínum tíma en er búin að fá góðar útskýringar hvað það varðar þannig að ég tel brýnt að ljúka málinu. Við erum búin að gera miklar breytingar á því. Búið er að tryggja að forvarnasamtök og grasrótarsamtök komi að úthlutun fjármuna úr forvarnasjóði eða lýðheilsusjóði og að áfram verði starfandi fagráð innan nýrrar stofnunar.

Ég tel rétt að gera eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna, að ekki eigi að auglýsa stöðurnar heldur tryggja atvinnuöryggi þeirra. Það er þó ýmislegt sem má gagnrýna í ferlinu eins og að ekki var skoðaður fjárhagslegur ávinningur að sameiningunni. Hins vegar er ekki meginhugmyndin í frumvarpinu að græða peninga. Meginhugmyndin er faglegur ávinningur og ég tel að hægt (Forseti hringir.) sé að ná faglegum ávinningi með þessu frumvarpi og mun styðja það af heilum hug.