139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2010.

577. mál
[12:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2010. Norrænt samstarf fer fram í 10 fagráðherranefndum og embættismannanefndum í 25 norrænum stofnunum, þar með talið skrifstofum ráðherranefndarinnar í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.

Samstarfinu er í meginatriðum stýrt með samstarfsáætlunum til lengri eða skemmri tíma og á hverju ári er skipulagður fjöldinn allur af norrænum viðburðum á öllum fagsviðum þess. Skýrslan sem hér hefur verið lögð fram getur aldrei orðið tæmandi en hún gefur eigi að síður góða mynd af því helsta sem unnið var að á umliðnu ári. Skýrslunni hefur þegar verið dreift til þingmanna og liggur hér frammi en ég vil í stuttu máli fylgja henni úr hlaði með því að draga fram nokkur atriði sem ég tel athygli verð án þess þó að kasta rýrð á það sem ekki vinnst tími til að nefna.

Í upphafi árs 2010 tóku Danir við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni af okkur Íslendingum. Yfirskrift þeirrar formennskuáætlunar var Norðurlönd í sókn og lykilhugtökin voru hnattvæðing, loftslagsmál og efnahagskreppan. Formennskuáætlunin gefur innsýn í áherslur ársins en með henni getur viðkomandi land varpað ljósi á ýmis mál sem það telur ástæðu til að huga betur að í norrænu samstarfi.

Undanfarin ár hafa svokölluð hnattvæðingarverkefni einkennt mjög norrænt samstarf en í ár er ætlunin að verja 72 milljónum danskra króna til slíkra verkefna. Allar fagráðherranefndirnar taka þátt í hnattvæðingarverkefnum en þau miða í raun að því að gera Norðurlönd að fyrirmyndarsvæði á heimsvísu sem sé þess megnugt að mæta vaxandi samkeppni í hnattvæddum heimi. Mikilvæg forsenda þess að ná árangri í þessum efnum er að ryðja úr vegi óþarfastjórnsýsluhindrunum milli landanna og koma því svo fyrir að Norðurlandabúar geti óhindrað lagt stund á nám, rannsóknir, viðskipti eða búið hvar sem er innan svæðisins. Af hálfu Dana var því rík áhersla lögð á að ötullega yrði unnið að þessum málum á árinu og voru þau til umfjöllunar á öllum fundum samstarfsráðherranna.

Nefnd á vegum norrænu samstarfsráðherranna um afnám stjórnsýsluhindrana, svokallað „Grænsehinderforum“, hélt áfram störfum á árinu en umboð hennar hefur nú verið framlengt til ársins 2013. Á borði nefndarinnar voru ýmis mál sem m.a. vörðuðu hagsmuni íslenskra námsmanna með einum eða öðrum hætti. Ég vil nefna í stuttu máli tvö dæmi sem eru um leið lýsandi fyrir hversu mikilvægt er að vaka vel yfir þeim ávinningi sem norrænt samstarf hefur fært okkur í gegnum tíðina og taka ekki þeim dýrmætu réttindum sem náðst hafa með norrænum samningum sem gefnum hlut.

Fyrra dæmið er að í Svíþjóð komu til framkvæmda haustið 2010 nýjar innritunarreglur í háskóla sem gerðu það að verkum að aðrir Norðurlandabúar geta nú ekki keppt við heimamenn á jafnréttisgrundvelli um inntöku í grunnnám í sænskum háskólum þar sem erlend stúdentspróf eru ekki metin á sama hátt og stúdentspróf tekin í Svíþjóð samkvæmt hinum nýju reglum. Sænskir nemendur njóta samkvæmt nýju reglunum forgangs umfram aðra umsækjendur og einkunnir nemenda annarra Norðurlanda eru settar og metnar í öðrum flokki en einkunnir sænskra nemenda. Það eru dæmi um það frá sl. hausti að íslenskir nemendur og nemendur frá öðrum norrænum ríkjum hafi fengið synjun um tiltekið nám þrátt fyrir háar einkunnir sem eðlilega hefðu átt að veita þeim inngang að slíku námi.

„Grænsehinderforum“ eða samstarfsvettvangurinn um afnám stjórnsýsluhindrana gerði alvarlegar athugasemdir við nýju reglurnar þar sem þær stangast á við samning norrænu menntamálaráðherranna um aðgang að æðri menntun. Sá samningur á að tryggja jafnan rétt norrænna stúdenta til náms í háskólum og æðri menntastofnunum hvar sem er innan Norðurlandanna. Sú andstaða hefur skilað ákveðnum árangri því að sænsk stjórnvöld hafa nú viðurkennt að nýju reglurnar stangist á við norræna samninga og hafa lýst því yfir að nýjar innritunarreglur verði unnar þar sem tekið verði tillit til norrænna samninga þegar kemur að innritun í háskóla haustið 2012 og er það fagnaðarefni.

Annað dæmi sem mig langar að nefna um stjórnsýsluhindranir eru mál sem komu líka til kasta nefndarinnar um afnám stjórnsýsluhindrana en það eru tryggingamál íslenskra námsmanna í Svíþjóð. Samkvæmt nýrri ESB-reglugerð sem tók gildi um mitt árið er það nú túlkun sænskra almannatrygginga að íslenskir námsmenn sem taka íslensk námslán eigi ekki bótarétt úr sænska tryggingakerfinu heldur skuli þeir fá bætur þaðan sem þeir hafa tekjur sínar. Íslensk tryggingayfirvöld hafa bent á að Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar, sem á að tryggja fólki félagsleg réttindi og bætur óháð búsetu innan Norðurlanda, sé í fullu gildi. Því er haldið fram á móti að ESB-reglugerðin gangi honum framar.

Mál þetta er enn óleyst en ég hef kynnt það í ríkisstjórn og er það nú til skoðunar í velferðarráðuneytinu auk þess sem unnið er að því á norrænum vettvangi. Ég held að þetta sýni að stjórnsýsluhindranir eru verkefni sem yfirgefur okkur ekki og er í sífelldri skoðun. Það er mjög mikilvægt að við séum á vaktinni gagnvart þeim hindrunum sem upp geta komið í samskiptum norrænu ríkjanna.

Eins og kunnugt er var sérstökum stuðningi við Ísland áframhaldið á árinu en norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu í kjölfar efnahagshrunsins að styrkja Ísland til þátttöku í norrænu samstarfi á árunum 2009 og 2010. Líkt og á árinu 2009 var framlagið 7,2 millj. dkr. sem skiptist þannig að 5,5 millj. dkr. fóru í að styrkja íslenska námsmenn á Norðurlöndum, 700 þús. dkr. fóru í tímabundið kynningarverkefni um norræna styrkjamöguleika og loks rann 1 millj. dkr. til ráðuneytanna til þess að niðurgreiða þátttöku starfsmanna í störfum norrænu embættismannanefndanna og starfshópa á þeirra vegum.

Þessi sérstöku framlög hafa komið að góðum notum. Ég vil nefna sem dæmi að 572 umsóknir bárust um námsmannastyrki, sem er næstum 43% aukning frá árinu áður. Heildarúthlutun styrkja til námsmanna nam ríflega 155 millj. kr. og hefur skipt miklu um það að fólk geti haldið áfram námi á Norðurlöndum.

Kynningarátak um norræna styrkjamöguleika hefur einnig tekist mjög vel en verkefnið heldur úti íslenskri heimasíðu þar sem hægt er að fá mjög greinargóðar upplýsingar um þá fjölbreyttu styrki sem hægt er að sækja um í norræna styrkjakerfinu.

Eins og kunnugt er var það auðvitað hugsað sem tímabundið átak til að styrkja Íslendinga í gegnum verstu efnahagsörðugleikana og verður dregið úr sérstöku framlagi til Íslands í norrænu fjárhagsáætluninni fyrir 2011 en þó eru enn ákveðnir fjármunir eyrnamerktir til þeirrar aðstoðar.

Menningarsamstarfið hefur löngum verið kjölfestan í norrænu samstarfi. Það tekur til sín um 18% þeirra fjármuna sem norrænar ríkisstjórnir verja til samstarfsins og er þannig næststærsta einstaka samstarfssviðið. Norrænt menningarsamstarf er bæði fjölskrúðugt og blómlegt og hefur efnahagskreppan síst dregið úr áhuganum. Norræni menningarsjóðurinn, sem var stofnað til árið 1966, er mjög mikilvægur þegar kemur að norrænu menningarsamstarfi en á síðastliðnu ári bárust sjóðnum rúmlega 1.200 umsóknir sem er nýtt met í umsóknafjölda. Sjóðurinn veitti styrki til 269 norrænna menningarverkefna og þar af voru 14 íslensk verkefni. Styrkupphæðir til þeirra voru á bilinu 25–250 þús. dkr.

Það svið sem hefur hins vegar yfir mestum fjármunum að ráða er mennta- og vísindasviðið en um fjórðungur norrænna fjárframlaga rennur til þess. Fjárfrekast verkefna innan mennta- og vísindasamstarfsins er samnorræna rannsókna- og nýsköpunaráætlunin á sviði umhverfis, loftslags og orku en fyrstu verkefnum innan hennar var hleypt af stokkunum á árinu. Áætlunin er langstærsta verkefnið sem Norðurlönd hafa hingað til komið sér saman um. Samtals verða um 400 millj. dkr., sem eru um 8,5 milljarðar kr., til ráðstöfunar á fimm ára tímabili. Þá er átt við framlög ráðherranefndarinnar, bein framlög frá rannsóknarráðum landanna og frá atvinnulífinu.

Annað stórt og mikilvægt verkefni sem náði mikilvægum undirbúningsáfanga á árinu er um rafræn vísindi, svokallað eScience, en stefnt er að því að það verkefni geti farið formlega fram síðar á þessu ári.

Lykilstofnanir í vísindasamstarfi Norðurlanda eru Norræna rannsóknarráðið, Norræna nýsköpunarmiðstöðin og Norrænar orkurannsóknir, en einnig skiptir gott tengslanet háskólasamfélagsins, rannsóknastofnana og fyrirtækja afar miklu máli.

Frú forseti. Ég hef nú stiklað á stóru um þá skýrslu sem liggur fyrir en það þýðir óhjákvæmilega að ekki er mögulegt að nefna allt það góða og dýrmæta samstarf sem við Íslendingar tökum þátt í á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Ég vísa því í skýrsluna sjálfa sem var eins og undanfarin ár tekin saman í samstarfi við embættismenn fagráðuneyta og aðra þá sem sinna samstarfinu fyrir okkar hönd.

Ég vil að lokum þakka Norðurlandaráði og sérstaklega Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir samstarfið á árinu sem leið, ekki síst hvað varðar undirbúning norrænu fjárhagsáætlunarinnar fyrir þetta ár. Um hana tókst góð sátt milli ráðherranefndarinnar og ráðsins og vænti ég hins sama um þá áætlun sem nú er í undirbúningi.

Að lokum vil ég nefna þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Reykjavík sl. haust en það er mál manna að allur undirbúningur og framkvæmd þess hafi verið til mikillar fyrirmyndar og sú pólitíska umræða sem þar hafi farið fram hafi verið einkar áhugaverð og gefandi.

Ég lýk þá máli mínu um skýrsluna og vísa til hennar um frekari efni í þessum málum.