139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Fyrst um fortíðina, vegna þess að hv. þm. Árni Johnsen nefndi áðan það stórslys að Sparisjóður Keflavíkur hefði ekki verið endurreistur og vildi meina að í því fælist metnaðarleysi af hálfu ríkisins, þá var það einfaldlega ekki í mannlegu valdi að endurreisa hann enda hefði þurft að eyða til þess meiru en tveimur þriðju af því sem líklegt er að við þurfum að borga vegna Icesave. Slíkt var það stórslys sem þeir óvönduðu menn skildu eftir sig sem höfðu farið ránshendi um þann sparisjóð og deilt út lánum án trygginga til vildarvina og félaga. (REÁ: Búinn að dæma bara?) Það er með ólíkindum en það gjaldþrot virðist vera á góðri leið með að eignast sess í heimssögunni vegna þess að svo lítið fæst upp í kröfur við gjaldþrot Sparisjóðs Keflavíkur að hann sker sig algerlega úr þegar horft er á fjármálastofnanir sem lent hafa í þrotameðferð. (SKK: Hvað …?)

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið talað um framtíðarrekstrarformið. Vegna þess að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr skýrt hvort pólitískur vilji sé til þess að byggja upp sterkt sparisjóðakerfi sem starfi vítt og breitt um landsbyggðina held ég að ég hafi sagt hér að rekstrarforsendurnar eru lykilatriði. Óskhyggjan gjörir þar enga stoð. Ef sérstaða sparisjóðanna, hin margumrædda, er ekki meiri en svo að hún stendur ekki undir rekstrargrunni þeirra, er hún ekki þess virði að þeir séu endurreistir. Það er ekki vilji til þess af minni hálfu að leggja byrðar á ríkissjóð til að halda uppi mörgum smáum sparisjóðum ef það felur í sér viðbótarbyrðar fyrir ríkissjóð. Fjármálakerfið okkar er allt of stórt og það er ekki forsvaranleg meðferð á almannafé að reyna að halda því enn stærra ef ekki eru rekstrarforsendur fyrir þeim einingum og þær geta ekki sjálfar komið sér upp burðugu samkeppnisforskoti sem réttlætt geti tilveru þeirra til lengri tíma litið.