139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:50]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gekk stoltur til þess verks á sl. hausti að samþykkja frumvarp um stjórnlagaþing og taldi að við þingmenn værum þar að stíga stórt skref inn í framtíðina. Stjórnmálaflokkar á Alþingi höfðu margsinnis reynt að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni en ekki tekist þrátt fyrir mikinn stuðning við þær breytingar meðal þjóðarinnar. Þar má m.a. nefna hugmyndir um þjóðareign á auðlindum, landið eitt kjördæmi, ákvæði um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna, umræður um breytingar á hlutverki forseta lýðveldisins, þar með talið um hið umdeilda málskotsákvæði, og svo má áfram telja.

Ég hef því talið eðlilegt og rökrétt í ljósi þessarar löngu sögu af misheppnuðum tilraunum þingsins til þess að ná samstöðu meðal allra flokka um stjórnarskrárbreytingar að draga nú línu í sandinn og segja: Nú er nóg komið af tregðu, undanbrögðum og eiginhagsmunagæslu. Nú er rétt að setja endurskoðun stjórnarskrárinnar í nýjan farveg, farveg sem ekki markast af stöðu og hagsmunum stjórnmálaflokkanna.

Það var á þeim forsendum sem ég var einarður stuðningsmaður stjórnlagaþings. Það var á þeim forsendum sem ég gekk stoltur að kjörborðinu 27. nóvember sl. Ekki er hægt að segja annað en að áhugi almennra borgara í landinu á því að takast á hendur þetta ábyrgðarhlutverk og setjast á stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána hafi farið fram úr björtustu vonum því að vel á sjötta hundrað einstaklinga buðu sig fram. Það var í senn viðurkenning á réttmæti þessarar merkilegu lýðræðistilraunar en vissulega einnig ákveðið fótakefli varðandi framkvæmd og undirbúning stjórnlagaþingskosninganna sjálfra. Hinn mikli fjöldi frambjóðenda gerði kjósendum og aðstandendum kosningarinnar erfitt fyrir og átti efalítið stóran þátt í því að ekki tókst sem skyldi að fylgja því fordæmi varðandi kynningu frambjóðenda og framkvæmd kosninganna sem kosningar til Alþingis og sveitarstjórna hafa gefið. Það var afdrifaríkt og hafði efalítið neikvæð áhrif á kjörsókn og opinbera umræðu um þingið, þar á meðal um það að flókið og erfitt væri fyrir kjósendur að gera upp hug sinn.

Sömuleiðis má leiða að því líkur að sú staðreynd að við framkvæmd kosninganna var í ákveðnum atriðum vikið frá almennum kosningalögum en ekki í öðrum atriðum, hafi haft áhrif á þá niðurstöðu Hæstaréttar að úrskurða kosningarnar ógildar. Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð í janúar að kosning til stjórnlagaþings hafi verið ólögmæt vegna annmarka sem voru á framkvæmd hennar. Lögspekingar hafa gagnrýnt að Hæstiréttur liti fram hjá ákvæði 120. gr. laga um kosningar til Alþingis um að forsenda þess að ógilda kosningu sé að ætla megi að gallar á framboði eða kosningu hafi haft áhrif á úrslit þeirra.

Ég get tekið undir það að því leyti að Hæstiréttur færir að mínu mati ekki sannfærandi sönnur á að umræddir gallar á framkvæmd kosningarinnar hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Hér verður að geta þess, til að öllu sé til haga haldið, að í lögum um stjórnlagaþing sem við samþykktum á Alþingi á síðastliðnu ári var ekki kveðið á um að ákvæði fyrrnefndrar 120. gr. laga um alþingiskosningar skyldi gilda í stjórnlagaþingskosningunum þrátt fyrir að sérstaklega væri kveðið á um að ýmis önnur ákvæði þeirra laga ættu við um kosningar til stjórnlagaþings. Þar liggur m.a. ábyrgð Alþingis sem við þurfum að horfast í augu við.

Hæstiréttur gerði heldur ekki tilraun til að vega afleiðingar hinna framkvæmdarlegu annmarka gagnvart hagsmunum almennings, skattborgara og þeirra frambjóðenda sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings en voru sviptir umboði sínu með ákvörðun réttarins. Í því samhengi er jafnframt athyglisvert að velta fyrir sér meginreglum um ógildingu stjórnvaldsákvarðana þar sem kveðið er á um að þegar um er að ræða verulega annmarka á stjórnvaldsákvörðunum þurfi samt sem áður að skoða hvort þeir annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöðu máls.

Niðurstaða Hæstaréttar er því ekki óumdeilanleg en stjórnskipun lýðveldisins er hins vegar skýr hvað það varðar að Hæstiréttur fer með æðsta dómsvald í landinu. Það er grundvallarafstaða mín að það sé skylda okkar á löggjafarsamkundunni að virða úrskurði Hæstaréttar hvað sem líður skoðunum okkar á þeim forsendum sem hann leggur til grundvallar. Stjórnarskráin boðar okkur að í reynd sé eldveggur á milli dómsvalds og löggjafarvalds í landinu sem setji okkur á löggjafarþinginu skýrar skorður þegar kemur að viðbrögðum við úrskurðum Hæstaréttar.

Ég tel því að sú leið að skipa stjórnlagaráð með þeim fulltrúum sem urðu hlutskarpastir í kosningunum 27. nóvember, kosningum sem Hæstiréttur hefur úrskurðað ógildar, sé því miður misráðin og feli í sér að löggjafarvaldið líti í reynd fram hjá úrskurði Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð sinn og ég tel að okkur beri að hlíta þeirri niðurstöðu, hversu sammála eða ósammála við kunnum að vera niðurstöðu hans efnislega.

Virðulegi forseti. Samráðshópi fulltrúa þingflokka um viðbrögð við dómi Hæstaréttar var falið að greina stöðuna og meta hvaða leið væri vænlegust til að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána á þessu kjörtímabili. Niðurstaða meiri hluta hópsins var sú að mæla með því að Alþingi skipaði stjórnlagaráð sem fengi ráðgefandi hlutverk við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ákvörðun um að fara þá leið er byggð á því mati að þótt umboð þeirra sem hlutu kosningu til setu á stjórnlagaþingi sé ekki lengur fyrir hendi verði ekki dregið í efa að þeir njóti ákveðins trausts kjósenda til að taka þátt í því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Ekkert bendir til að misferli hafi átt sér stað við kosninguna og ekki hefur verið sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að ágallar á framkvæmdinni hafi í raun haft áhrif á hvernig kjósendur greiddu atkvæði.

Ég tek það fram að ég tel að það sé í fullu samræmi við lög að Alþingi skipi hvaða fólk sem er í hvaða nefndir og ráð sem því sýnist. Það er líka skiljanlegt að horft sé til þess viðbótarkostnaðar sem óumdeilanlega hlýst af því að endurtaka svo viðamikla kosningu. Hitt liggur á borðinu að umboð þeirra einstaklinga sem kosnir voru á stjórnlagaþing 27. nóvember féll úr gildi við úrskurð Hæstaréttar og því verður ekki fram hjá því litið að hæpið er að nýta niðurstöðu kosningar sem dæmd hefur verið ógild til að fullnusta svo afdrifaríkt viðfangsefni sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er.

Ég er þeirrar skoðunar að farsælast hefði verið að horfast í augu við þá annmarka sem voru á kosningunni og framkvæmd hennar, og lagfæra og tryggja að framkvæmdin yrði hnökralaus í nýjum kosningum til stjórnlagaþings. Það hefði legið beinast við að endurtaka kosninguna með sömu frambjóðendum, fara í svokallaða uppkosningu sem er sú aðferð sem notuð hefur verið þegar almennar kosningar hafa verið dæmdar ógildar.

Nú hafa mál skipast með þeim hætti að sú leið er í reynd fallin á tíma enda um tveir mánuðir liðnir frá úrskurði Hæstaréttar. Við höfum hér fyrir framan okkur tillögu um skipun stjórnlagaráðs. Ég hef skilning á þeim röksemdum sem þar liggja til grundvallar og virði að sjálfsögðu þá niðurstöðu sem meiri hluti þingsins kemst að en sé mig knúinn til að benda á annmarkana við þá leið.

Ég skal vel játa að það er mér þungbært að geta ekki stutt þá leið sem hér er lögð til en þar ræður afstöðu minni að þegar um er að ræða svo mikilvægt málefni sem endurskoðun sjálfrar stjórnarskrár lýðveldisins er sé mikilvægt að standa þannig að málum að framkvæmdin sé eins og kostur er hafin yfir allan vafa. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að mikilvægi þess verkefnis sem stjórnlagaráðinu er ætlað að vinna er ótvírætt og vil taka það sérstaklega fram að ég treysti vel þeim 25 einstaklingum sem urðu hlutskarpastir í kosningunni í nóvemberlok til að vinna þetta verk með sóma.