139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurt um ýmis atriði í viðtengingarhætti sem ég tel engan veginn tímabært að fara út í á þessu stigi. Við höfum engar upplýsingar um að þeir einstaklingar sem fengu besta niðurstöðu í kosningunni 27. nóvember ætli ekki að svara kalli um að taka sæti í stjórnlagaráði. Meðan svo er held ég að við verðum að spara okkur bollaleggingar af því tagi sem hv. þingmaður býður upp á.

Ég vil þó gera að umtalsefni það sem þingmaðurinn nefndi varðandi kjörsóknina. Ég er ekki sammála því að hún hafi verið slæm. Hér var um að ræða algerlega nýjar kosningar og engin fordæmi um kosningar af þessu tagi. Eins og ég rakti í ræðu minni var framkvæmdin auðvitað mun flóknari en við eigum að venjast í kosningum þar sem eru tiltölulega fáir listar og menn ekki í miklum vandræðum með að gera upp á milli þeirra, hafa margsinnis gengið að kjörborðinu og búa að ákveðinni lífsskoðun og sannfæringu sem vísar þeim yfirleitt veginn í þeim efnum. Þarna vorum við í alveg nýju verkefni þar sem 526 einstaklingar buðu sig fram og gera þurfti upp á milli þeirra með því að setja sig inn í mannkosti þeirra, fortíð og ekki síst þær áherslur sem þeir tóku með sér í þetta mikilvæga verkefni. Ég held að þetta hafi verið tilraun sem var allrar athygli verð og reyndar trúi ég því og treysti að við munum fara í gegnum ýmsar fleiri kosningar á komandi missirum þar sem almenningi í landinu verður treyst til að taka ákvarðanir sem miklu skipta um framtíð samfélagsins.