139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um að hv. þm. Róbert Marshall, sem er vandur að virðingu sinni, hefur reynt að gera það sem hann gat gert sem formaður allsherjarnefndar og vandað til verka, ég veit að hann hefur gert það. En ég hlustaði líka á ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem einmitt dró það fram að ekki voru kallaðir til allir gestir sem menn óskuðu eftir, að hann sem fyrrum formaður menntamálanefndar hefði aldrei upplifað slíkt. Þetta er það sem hann sagði í ræðu sinni hér í dag og sýndi fram á ákveðin vinnubrögð í tengslum við þessa tillögu. Ég veit að hv. þingmaður hefur þó reynt að gera það sem hann gat gert. Gott og vel.

Við höfum fengið þetta aftur til umræðu og við erum efnislega ósammála um ákveðna þætti. Hv. þingmaður segir: Þetta rímar ekki við upplifun þingmannsins og þá sérstaklega hvað varðar upphaf málsins, þ.e. frá síðasta ári, að efnt hafi verið til þjóðfundar að tillögu okkar sjálfstæðismanna. Það er alveg rétt. Það var farið í að gera stjórnlagaþingið ráðgefandi, og það voru reyndar fleiri en við sjálfstæðismenn sem lögðum það til, það var farið í það, það er rétt. Það þýðir ekki að við séum efnislega sammála málinu og það er það sem við eigum að venjast hér í þinginu varðandi ýmis mál. Ég get nefnt ýmis mál þar sem við sjálfstæðismenn erum algjörlega á móti, alls konar mál, en við reynum þó að gera það sem við getum til að bæta þau.

Eigum við að nefna Icesave 1? Við fengum reyndar ekki að koma neitt að ráði að Icesave 2. Þetta eru dæmi um mál sem við vorum algjörlega á móti en við reyndum að segja: Gott og vel, þetta mál er komið til þingsins og þá ætlum við að reyna að gera það skárra ef hægt er. Það er hægt að draga fram ýmis mál þar sem stjórnarandstaðan reynir að gera sitt í vinnu þingsins en er í meginprinsippum á móti málinu sem slíku.