139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. ræðumanni, forustuleysið er að sjálfsögðu æpandi í þeirri ríkisstjórn sem nú situr.

Hv. þingmaður gerði m.a. að umtalsefni, ef ég heyrði rétt, það bréf sem var kynnt fyrir allsherjarnefnd. Einnig talaði hv. þingmaður um kosningakerfið, þ.e. hvernig staðið var að kosningunum, landið eitt kjördæmi og úrslitin eftir því. Telur hv. þingmaður hægt að fara af stað með aðrar kosningar byggðar á sama kerfi, þ.e. með þessa einföldu persónukosningu sem var og landið eitt kjördæmi í ljósi þessarar niðurstöðu?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er að ég óttast að menn læri ekki neitt af þessari framkvæmd. Í ljósi þeirra fáu orða sem hafa fallið hér hjá stjórnarliðum í kvöld sýnist mér það þannig. Er þetta kerfi ekki búið að sýna að við getum ekki kosið eins og þetta var sett upp?

Hitt sem ég benti á í ræðu minni hér fyrr í kvöld er að það var ójafnvægi á milli frambjóðenda. Þeir sem hafa notið náðar fyrir augum þeirra er stjórna spjallþáttum, kjaftaþáttum í sjónvarpi, höfðu ákveðið forskot á aðra. Þá velti ég því upp hvort það þurfi á einhvern hátt að hjálpa þeim sem ekki njóta frægðar á þessum vettvangi að koma sér á framfæri verði aftur farið í kosningar (Forseti hringir.) sem þessar.