139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla því að sú leið sé farin að lengja þingfund í dag og í kvöld vegna þess að það er í sjálfu sér ekkert á dagskrá sem kallar á það. Það er töluvert eftir af þingstörfunum og því var komið á framfæri í morgun við forseta að samkvæmt dagskrá þingsins hafa margir þingmenn gert plön og bókað sig á fundi í kvöld og þess háttar. Þar af leiðandi er mjög óheppilegt að vera að breyta þessu og ekki síst þegar engin ástæða er til. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessu og vona að þetta séu ekki vinnubrögð sem eigi að taka upp mjög oft, þ.e. að vera að lengja fundi að ástæðulausu af mjög óljósum ástæðum.