139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir hrun störfuðu tveir ríkisbankar á Íslandi, annar var Íbúðalánasjóður og hinn Byggðastofnun. Báðir hafa farið mjög flatt á hruninu eins og einkabankarnir. Þar töpuðu hluthafar og eigendur öllu sínu en hér er það ríkið sem verður að blæða. Það er því ekki endilega eignarhaldið sem skiptir máli í þessu sambandi.

Hér hefur verið rakið að tap sjóðsins megi rekja til lána til félaga sem áttu leiguíbúðir. Þar var farið mjög óvarlega að mínu mati. Ég varaði við því í félagsmálanefnd ítrekað löngu fyrir hrun að þetta gæti komið upp, að byggingaraðilar mundu losna við íbúðirnar sínar til leigufélaga í sinni eigu sem tóku lán hjá Íbúðalánasjóði. Nú hefur þetta komið á daginn.

Í öðru lagi er það 110% reglan sem verið er að koma með núna, sem er almenn skuldaniðurfærsla. Það var líka varað við henni. Ég hef margoft varað við henni, að hún mundi kosta mjög mikið og lenda oft og tíðum hjá fólki sem ekkert endilega hefur þörf fyrir það. Það er að koma í ljós núna að 70% af þeim fjármunum sem fara í 110% regluna renna til íbúða eða fólks sem býr úti á landi þar sem menn höfðu fengið lánað fyrir byggingarkostnaði en verðmat eigna á svæðinu var miklu lægra.

Fleiri hættur blasa við Íbúðalánasjóði. Þar hef ég margoft nefnt að kyrrstaða og stöðnun sem núverandi ríkisstjórn er að innleiða á Íslandi geti leitt til þess að raunvextir lækki umtalsvert, niður í jafnvel 1 eða 2%. Þá munu skuldarar Íbúðalánasjóðs greiða upp sín lán í stórum stíl og taka lán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóður situr með eignirnar verðlausar en skuldirnar sitja eftir. Reyndar hefur hann varúðartæki (Forseti hringir.) en þau eru mjög hastarleg.