139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Hann kom víða við en það voru nokkur atriði sem slógu mig. Í fyrsta lagi talaði hann um fullvalda ríki. Þá er það spurningin: Hvað segir hv. þingmaður um það þegar sumir segja að fullveldi ríkis felist í því að geta afsalað sér fullveldinu, eins og sumir gera þegar þeir vilja að Ísland verði innlimað inn í Evrópusambandið? Ég veit að við deilum báðir meiningu um að þangað hafi Ísland ekkert erindi þó að það sé ágætt samband í sjálfu sér.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um varðar það sem hann sagði um auðlindir landsins. Hvað er eiginlega auðlind? Fyrir 100 árum eða rúmlega það hefði enginn maður talið að sjórinn væri auðlind vegna þess að ótrúlegur fjöldi sjómanna fórst við að sækja fisk úr sjó og þjóðin var sárafátæk með sína miklu auðlind þannig að ekki hefur hún skapað auð, það er greinilegt.

Það sama gildir um fallvötnin, þau væru til bölvunar í flestum sveitum, óbrúuð og tóku hesta og menn. Þau voru því ekki auðlind. Sjórinn, vötnin og árnar urðu ekki auðlind fyrr en mannshugurinn, mannauðurinn breytti skipunum þannig að þau urðu örugg og virkjaði árnar. Við vitum núna að allt þetta eru auðlindir en við vissum það ekki þá þannig að við getum illa sagt til um það í framtíðinni hvað telst vera auðlind þá.

Varðandi það að ná markmiðum okkar fram um sjávarútveginn sem auðlind — ef Evrópusambandið getur breytt út frá sínum reglum sem gilda í dag, hvað segir okkur að það geti ekki breytt þeim aftur til baka eftir 10 ár?