139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

launakjör hjá skilanefndum bankanna.

[10:40]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og mörgum öðrum í landinu finnst mér erfitt, eftir allt sem á undan er gengið, hrunið stóra sem græðgin leiddi yfir þessa þjóð okkar, að horfa upp á að enn þá séu starfandi hópar í þessu þjóðfélagi sem ekkert hafa lært og ætla engan lærdóm að draga af þeim hörmungum sem græðgin hefur leitt yfir þjóðina. Sérstaklega vísa ég hér til hóps sem hegðar sér eins og ríki í ríkinu, skilanefnda bankanna. Þær taka sér sjálfar ofurlaun og starfa í mikilli leynd.

Ég geri mér vel ljóst að það á að vera einhvers konar eldveggur á milli nefnda sem vinna á þennan hátt og stjórnvalda. Það breytir ekki því að stjórn ríkisins er í höndum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Ég spyr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann leggi blessun sína yfir störf skilanefnda og framferði þeirra með aðgerðaleysi sínu á þessu sviði eða hvort hann ætli að aðhafast eitthvað. Ef svarið er að hann ætli að aðhafast eitthvað, sem ég vona að verði, spyr ég: Nákvæmlega hvað og hvenær?