139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram sem mér finnst að mestu hafa verið málefnaleg. Ég vil byrja á að segja, af því að hér hafa verið aðdróttanir um að ég sé að vísa frá mér ábyrgð í þessu máli og vísa henni á undirmenn mína og þá aðila sem komu að þessu undirbúningsferli eins og mannauðsstjórann, að það er auðvitað fjarri lagi. Það sem ég gerði var að lýsa fyrir Alþingi, eins og mér ber skylda til að gera, hvernig þetta mál var unnið, hvernig það var undirbúið, á hvaða grunni ég reisti og byggði mína ábyrgð. Þegar það liggur fyrir að ég er með þetta í höndunum og tek ákvörðun er ábyrgðin mín og ég skorast ekki undan henni.

Það er heldur ekki rétt sem hér var ýjað að, að pólitísk framtíð mín skipti einhverju máli í þessu sambandi. Hún gerir það ekki. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að við drögum af þessari niðurstöðu rétta niðurstöðu. Þar fannst mér Björgvin G. Sigurðsson komast að hárréttri niðurstöðu. Hann segir: Það sem þarf að skoða í þessu sambandi og þessu ferli öllu er faglega matið, þar þurfa menn að skoða málið.

Hvers vegna var því faglega mati, sem ég taldi mig byggja á alveg frá grunni og lagði upp með sem slíkt, hafnað og vísað til hliðar en tekið upp allt annað mat sem kærunefnd kemst svo að niðurstöðu um? Mér finnst tilefni til að fara yfir þetta. Í mörgum málum þar sem úrskurðarnefndir eru til staðar, ekki bara í jafnréttismálum heldur skipulagsmálum og fleiri málum, er oft um að ræða matskennd atriði sem ráðherrar verða að lokum að bera ábyrgð á og taka ákvörðun um. Svo er í þessu tilviki. Þarna kemur fram mismunandi mat og misvísandi niðurstöður. Af því eigum við sannarlega að draga niðurstöðu, og hana rétta, og fara yfir þetta mál.

Ég vil segja að ég treysti kærandanum í þessu tilviki mjög vel. Ég bendi á að ég skipaði Önnu Kristínu Ólafsdóttur sem formann yfir nefnd sem vinnur það vandasama verk að endurskoða stjórnsýsluna, m.a. hvernig staðið er að ráðningum. Hún var ráðin í það mál og stóð sig mjög vel í því. Hún sagði sig að vísu frá því þegar niðurstaða lá fyrir í þessu máli. Hún var mjög hæf í þessu efni. En ég bara treysti mér ekki til að ganga fram hjá faglegu mati sem sett er í mínar hendur og velja aðila sem metinn er númer fimm í röðinni og velja þann aðila númer eitt. Ég bara treysti mér ekki til þess. Það segir hins vegar ekkert um að Anna Kristín er mjög hæf til ýmissa verka sem hún hefur tekið að sér í gegnum tíðina.

Ég vísa því líka á bug sem hér hefur verið sagt að það sé hægt að bera saman ráðningu Ólafs Barkar þar sem ráðherrann var með niðurstöðu frá Hæstarétti um svona mat á einstaklingum, hæfi þeirra eins og ég var með, þar sem hann fékk mjög lágt mat á móti öðrum einstaklingum. Samt var hann ráðinn. Það er ráðning sem ég hefði ekki viljað standa að og bera ábyrgð á vegna þess að það var pólitísk ráðning þar sem gengið var gegn hæfnismati sem lá til grundvallar. Á þessu er ríkulegur munur.

Það er spurt um framhaldið. (Forseti hringir.) Ég mun ræða þetta mál við ríkislögmann. Ég mun leita ráða í þessu máli, ég mun fara í þessa rýnivinnu sem ég nefndi og síðast en ekki síst munum við hafa fund með kæranda og þá munum við ákveða framhald þessa máls.