139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra þarf að skipta um plötu. Þessi ræða sem hún hélt áðan var á stórum köflum gatslitin og hriplek og í engu samræmi við raunveruleikann. Þótt hæstv. fjármálaráðherra trúi á sitt nef dugar það nú ekki við stjórn efnahagslífs í þessu landi. Sannleikurinn er sá að aðilar vinnumarkaðarins eru tilbúnir til þess að leggja margt á sig til að koma á friði á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin ætlar augljóslega ekki að gera neitt sem samningsaðilar geta sætt sig við til lengri tíma. Þetta sýnir reynslan okkur allt frá sumrinu 2009. Þess í stað ákveður ríkisstjórnin, sem ætti að hafa það eitt á oddinum að greiða fyrir kjarasamningum, að þvælast fyrir. Það gerir hún með því að leggja alltaf meira og meira undir í einstökum málum og gera samninga þar með erfiðari fyrir viðsemjendur. Dæmalausar yfirlýsingar um þjóðnýtingu einkafyrirtækja, yfirlýsingar um þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórn, tal um þjóðaratkvæði um hugmyndir sem enginn hefur séð, yfirlýsingar um stóraukna skattheimtu á fjölskyldur sem þegar eru að sligast. Einstakir þingmenn stjórnarliðsins virðast þó gera sér grein fyrir að hagvöxtur og atvinnuuppbygging er órofaheild, en þrátt fyrir það styðja þeir ríkisstjórn sem rær ekki í þá átt.

Sú hagvaxtarspá sem barst okkur í dag frá Alþýðusambandi Íslands sýnir einmitt að hér verður áframhaldandi stöðnun næstu árin. Sá hagvöxtur sem þar er spáð dugar einungis til að halda okkur nákvæmlega á þeim stað. Hversu lengi ætla þeir þingmenn sem tala fyrir aukinni atvinnuuppbyggingu að styðja þessa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar?

Hér tala menn um að ná fram stöðugleika. Það er, eins og þegar hefur komið fram, hrein stöðnun. Stöðugleikinn sem ríkisstjórnin býður upp á felst í því að þjóðin liggur marflöt á botninum, á botni efnahagslægðarinnar og engin merki eru um það hjá hæstv. forsætisráðherra að það sé raunverulegur vilji til þess að gera það sem þarf til að koma okkur upp úr henni. Þegar hæstv. ráðherrar hafa ekkert annað fram að færa í umræðunni en að tala um svartsýni hjá þeim sem benda á augljósar staðreyndir, sýnir það okkur allra best á hvaða villigötum ríkisstjórnin er. Verði ekki algjör stefnubreyting við stjórn landsins blasir það við að svona verður þetta næstu árin. Eina svarið sem hægt er að leggja fram við því ófremdarástandi sem hér ríkir er algjörlega ný efnahagsstefna en hana getur þessi ríkisstjórn ekki lagt fram.