139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gengst við því að vera áreiðanlega talinn í hópi íhaldssamra þingmanna og hef löngum verið það frá því að ég kom hér inn fyrir átta árum gagnvart ýmsum breytingum á starfsháttum þingsins. Ég held að það að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað sé æskilegt markmið og mikilvægt markmið. Mörg okkar eru með ungar fjölskyldur, ung börn, og auðvitað er það sérstaklega tilfinnanlegt oft hversu þingstörfin geta tekið óvænta stefnu og erfitt að sjá fyrir einstaka daga svo maður tali ekki um einstakar vikur og hvernig þær þróast í þingstörfunum.

Ég held hins vegar að um leið og við reynum almennt að skipuleggja störf okkar, skipuleggja dagana, skipuleggja vikurnar og þingstörfin í heild þannig að það sé að mestu leyti fyrirsjáanlegt verðum við líka að horfast í augu við að eðli þings og eðli starfa okkar á vettvangi stjórnmálanna er slíkt að þar koma óvænt atvik upp á, þar koma upp atburðir sem þarf að bregðast við. Fram hjá því munum við ekki komast. En getum við gert betur? Getum við gert betur í sambandi við skipulagningu þingstarfanna frá degi til dags og frá viku til viku? Já, við getum gert það. Við gerum það ekki endilega með breytingum á þingsköpunum sem slíkum heldur með þeim vinnubrögðum og ákvörðunum sem hér eru teknar bæði til lengri tíma og skemmri varðandi skipulag og stjórn þingsins.