139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

skuldamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

619. mál
[17:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmanni Helga Hjörvar fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég tek undir að auðvitað er ekki vansalaust hversu hægt þessi mál hafa gengið fyrir sig. Það er athyglisvert að það var fyrst um miðjan desember á síðastliðnu ári sem þetta samkomulag sem ég var að vísa til var gert. Þá var metið svo að 5–7 þúsund fyrirtæki þyrftu að fara í gegnum svona hreinsun, ef við getum orðað það svo. Núna standa menn allt í einu frammi fyrir því að kannski munu ekki nema innan við þriðjungur þeirra fyrirtækja falla undir þetta. Hæstv. ráðherra orðaði það svo að það gæti bent til þess að fjöldi fyrirtækjanna sem gætu nýtt sér þetta úrræði væri ofmetinn. Þá vaknar auðvitað sú spurning sem líka vekur miklar áhyggjur: Getur verið að mjög mikill fjöldi fyrirtækja muni einfaldlega ekki fá úrlausn, horfum við hér upp á meiri gjaldþrot en við hugðum í íslensku atvinnulífi með öllum þeim kostnaði og röskun sem því fylgir? Við hljótum þá að þurfa að fara yfir þetta að nýju og athuga hvort leita beri nýrra úrræða eða hvort við ætlum einfaldlega að láta þá hluti ganga fram eins og þeir virðast vera að gera ef jafnvel þúsundir fyrirtækja munu ekki fá úrlausn sinna mála á grundvelli Beinu brautarinnar eins og við trúðum.

Ég hef nokkrar áhyggjur af því, nú þegar liðinn er 2/3 tímans sem ætlaður var fyrir Beinu brautina, að ekki nema fjórðungur fyrirtækjanna 1.700 sem um er að ræða hefur fengið tilboð frá fjármálastofnunum. Tíminn mun auðvitað líða hratt. Kannski geta menn unnið þetta hraðar á næstu tveimur mánuðum. Við skulum vona það. En þegar liggur fyrir að ekki nema 360 fyrirtæki af 1.700 hafa fengið tilboð vekur það óneitanlega með manni nokkurn ugg.

Ég vil þess vegna hvetja til að í fyrsta lagi verði reynt að hraða þessari vinnu. Í öðru lagi verði málefni þeirra fyrirtækja sem þarna virðast vera að falla milli skips og bryggju skoðuð sérstaklega . Í þriðja lagi að kanna (Forseti hringir.) hvort ástæða sé til að framlengja þann tíma sem Beinu brautinni er ætlað að standa.