139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Á vef Ríkisútvarpsins ruv.is fyrr í dag segir, með leyfi forseta:

„Össur Skarphéðinsson […] sagði á fundi utanríkismálanefndar að hann hefði haft óskorað umboð til að styðja að Atlantshafsbandalagið tæki yfir stjórn hernaðaraðgerða.“

Á Alþingi í gær sagði formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs aðspurður um hvort flokkurinn styddi þá sömu ákvörðun, með leyfi forseta:

„Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“

Það liggur sem sagt fyrir að þegar Norður-Atlantshafsráðið, NATO, tók ákvörðun sl. sunnudag um að taka yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu lét hæstv. utanríkisráðherra samþykkja ákvörðunina án þess að bera hana undir samstarfsflokkinn, Vinstri græn, sem var og er andvígur loftárásunum. „Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“ — Þar með var Vinstri grænum neitað um þann möguleika að ríkisstjórnin beitti neitunarvaldi í Norður-Atlantshafsráðinu sem hefði komið í veg fyrir að bandalagið tæki að sér stjórn hernaðaraðgerðanna. Hvert bandalagsríki hefur klárt neitunarvald. Þannig vinnur NATO. Vinstri græn hefðu getað haft heimssöguleg áhrif á utanríkisstefnu bandalagsins og komið henni á kortið en þau voru ekki spurð. Um leið er ljóst að Samfylkingin er búin að gera Vinstri græn ábyrg án þeirra samþykkis og gegn vilja þeirra fyrir hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Það er sjálfsagt rannsóknarefni hvernig aðdragandinn að þessari ákvörðun gat farið fram hjá bæði formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og formanni utanríkismálanefndar.

En það er ekki bara meðferð Samfylkingarinnar á samstarfsflokknum sem vekur athygli heldur einnig meðferð hæstv. utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar á stjórnskipaninni. Ég vek sérstaka athygli þingsins á því að ráðherrann hafði ekki samráð við utanríkismálanefnd um það hvernig atkvæði Íslands yrði ráðstafað í ráðinu (Forseti hringir.) sl. sunnudag og spyr því hv. formann utanríkismálanefndar: Hvers vegna var það ekki gert?