139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:46]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á eftirlitsþættinum í velferðarmálum og ég held að við eigum svo sannarlega að ræða hann. Ég sit í hv. félags- og tryggingamálanefnd og við höfum rætt mikið um að aðskilja þurfi eftirlitið frá framkvæmdinni eins mikið og hægt er. Við þurfum að vita hvað við ætlum að skoða. Í málaflokki fatlaðra, þar sem ég sit í samráðsnefnd, erum við t.d. mjög upptekin af því að ekki má bara tala um sambærilegar tölur. Við þurfum líka að tala um gæði og það skiptir mjög miklu máli. Þetta er ekki bara spurning um hvað hlutirnir kosta heldur líka að við séum með sambærilega gæðastaðla.

Ég held að þarna sé ákveðinn samhljómur og við eigum að nýta hann sem allra best. Í þessu tilviki vorum við kannski ekki að tala svo mikið um eftirlit því það var hluti af sameiningarferlinu. Eftirlitið var hjá landlæknisembættinu og fer þar af leiðandi til þessarar nýju stofnunar.

Hv. þingmanni var líka nokkuð tíðrætt um kostnað. Mig langar til að fá hann til að bregðast við einu. Í nefndaráliti hans og hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er talað um óhagstæða leigusamninga landlæknisembættisins vegna núverandi húsnæðis. Nú er það svo að hv. þingmaður þekkir til í ráðuneyti heilbrigðismála. Mig langar því að fá viðbrögð hans við því hvernig standi á að þessir samningar eru almennt til og hvort hann þekki til þeirra. Hvaða leið sér hann til að við getum komist út úr þessu? Þessi samningur er ekkert einsdæmi. Svona óhagstæðir samningar eru til víðar í stjórnsýslunni og voru gerðir á ákveðnum tíma til 25 ára með mjög hárri leigu. Mig langar að heyra hvaða skýringar hann hefur á þessum leigusamningum sem gerðir voru meðan flokkur hans var í ríkisstjórn.