139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Gunnarssyni fyrir andsvar hans. Ég er mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður er að vakna, svolítið seint þó. Þetta er nákvæmlega það sem við hefðum átt að ræða í hv. heilbrigðisnefnd. Ég held að ef við læsum lögin, ekki bara í heilbrigðismálum heldur almennt og við vissum ekkert annað, kæmumst við að þeirri niðurstöðu að flest væri betra en það er núna. Það er nefnilega ekki nóg að vera með lög, þau þarf líka að framkvæma.

Hv. þingmaður segir: Það þarf ekki valdheimildir heldur fjármagn. Hvað veit hv. þingmaður um það? Höfum við rætt það í hv. heilbrigðisnefnd? Höfum við kallað eftir upplýsingum um það? Nei. Kannski hefur meiri hlutinn farið yfir þennan faglega þátt á einhverjum sérfundi. En við gerðum það ekki í hv. heilbrigðisnefnd eins og okkur ber skylda til. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Ég er ekki að gagnrýna einn eða neinn, ekki landlæknisembættið eða heilbrigðisþjónustuna. Ég segi bara að við þurfum að gera betur og okkur hv. þingmönnum ber skylda til að vinna að því. Ég tel að við höfum ekki gert það. Við höfðum tækifæri núna og við nýttum það ekki. Ef fjármagn vantar, af hverju í ósköpunum erum við þá að fara í sameiningu sem mun kalla á aukinn kostnað og sá kostnaður mun jafnvel lenda á nýrri stofnun? Hún hefur þá enn minni fjármuni til að sinna eftirliti, ef kenning hv. þingmanns er rétt um að fjármuni vanti til að sinna því. Ef það lendir ekki á viðkomandi eftirlitsstofnun, virðulegi forseti, lendir það á heilbrigðisstofnunum (Forseti hringir.) sem eiga að sinna þjónustunni.