139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[12:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Áður fyrr starfaði hæstv. utanríkisráðherra með flokkum sem voru til í að taka þátt í að byggja upp atvinnu á Íslandi. Nú starfar hann með flokki sem ekki vill gera neitt. Það er vandamál hæstv. ráðherra og hann ætti kannski að hugsa sinn gang í þeim efnum.

Það er rétt að menn lofa alls konar hlutum. Það er heilmikið í gangi og heilmikið sem hægt væri að gera, en á meðan menn gera ekki neitt gerist ekki neitt. Þessi 2.000 störf eða 6.000 störf, mismunandi mörg eftir á hvaða tíma menn tala um þau, eru ekki orðin til og fólk getur því ekki sótt um þau. Það er ekkert að gerast. Það er vandamálið.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri heilmikið að gerast. Hann nefndi reyndar ekki vandann við fjármögnun sem er til staðar en það er hægt að leysa hann á tiltölulega einfaldan hátt. Það væri hægt að leigja Landsvirkjun eða einhverju öðru fyrirtæki, t.d. Orkuveitunni, auðlindirnar til 35 eða 40 ára eða hvað menn telja nauðsynlegt, og svo mætti selja fyrirtækin. Ríkið gæti sem handhafi auðlindanna gæti leigt þær til hæfilega langs tíma og svo mætti selja fyrirtækin. Ég er sannfærður um að þá fengist fjármagn. Lífeyrissjóðirnir mundu fjárfesta í slíkum gullgæsum eins og skot, þannig að það eru ýmsar lausnir á vandamálinu ef menn hafa vilja og getu til að framfylgja skynsamlegri stefnu til að byggja upp atvinnu á Íslandi, en það bara gerist ekki neitt.