139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

647. mál
[12:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn um fjármálaþjónustu og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB. Hún varðar breytingar á tilteknum tilskipunum ESB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.

Meginmarkmiðin með þeim breytingum er að takmarka hversu mikla áhættu lánastofnanir geta tekið að því er varðar einn aðila, að bæta krísustjórnun þeirra og að efla eftirlit og samvinnu eftirlitsaðila yfir landamæri. Tilskipunin setur meðal annars ramma um svokallaða blendingsfjármálagerninga sem, með leyfi forseta, er á ensku „hybrid capital instruments“, og stöðu þeirra við útreikning á eigin fé fjármálafyrirtækja. Jafnframt setur hún ramma um hvað telja megi til eigin fjár fjármálafyrirtækja að teknu tilliti til mismunandi félagaforms þeirra.

Tilskipunin krefst breytinga á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum nú á vorþingi. Frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu, sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst einnig leggja fram nú á vorþingi, inniheldur jafnframt ákvæði sem er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um breytingar á þeirri sem er nr. 2007/64/EB. Þar að auki krefst tilskipunin að líkindum breytinga á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en um hana gilda lög nr. 87/1998, en það liggur ekki enn þá fyrir hvenær frumvarp til breytinga á þeim lögum verður lagt fram.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því óska ég fyrir ríkisstjórnarinnar hönd eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Sem fyrr, frú forseti, legg ég til að þegar umræðu lýkur um þetta mál verði það sent hv. utanríkismálanefnd til vinnslu.