139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að þinginu verði með einhverjum hætti gerð grein fyrir þeim tilboðum eða fyrirheitum eða hvað á að kalla það sem ríkisstjórnin er að kynna fyrir aðilum vinnumarkaðarins núna. Hér er væntanlega um að ræða mál sem munu koma til afgreiðslu okkar að stórum hluta til. Það er nauðsynlegt að þingið sé upplýst um þetta þegar í stað, sérstaklega í ljósi þess að áður hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur ýmist lofað upp í ermina á sér í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins eða lofað upp í ermina á okkur hinum. Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur sem sitjum á þingi að fá upplýsingar um þetta jafnóðum og þegar í stað þannig að ekki líði vika þangað til tækifæri gefst til að eiga samræður við ráðherra um þetta á þessum vettvangi.