139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það ber ekki að skilja mig á einn eða neinn hátt um þetta enda er ég ekki erindreki neinna þeirra kappsmanna um framgang vatnatilskipunarinnar sem hugsanlega tala þá við hæstv. umhverfisráðherra. Ég bendi hv. þingmanni á að kanna það hjá hæstv. umhverfisráðherra hvernig standi á þessu. Það eina sem ég segi er þetta: Við höfum lokið okkar verkefni. Við hófum það um miðjan janúar og við höfum unnið það í janúar, febrúar og í mars og við ljúkum því hér á síðasta degi marsmánaðar. Ég tel það vel að verki verið.

Ég tel líka, eins og ég sagði áðan, að við höfum þurft á öllum þessum tíma að halda og nú er því lokið og það er vel.