139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar og jöfnun flutningskostnaðar.

[10:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrradag hélt ríkisstjórnin fund á Ísafirði og að honum loknum var gefin út yfirlýsing um eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Ýmislegt má um það segja, ég ætla svo sem ekki að gera það almennt að umræðuefni heldur víkja fyrst og fremst að tveimur þáttum þessara mála sem koma fram í yfirlýsingunni. Hér er ég að vísa til yfirlýsingar sem lýtur að áformum um að lækka húshitunarkostnað og áformum um að jafna flutningskostnað. Hvort tveggja er gríðarlega þýðingarmikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina alla og þess vegna binda menn miklar vonir við þessar yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar.

Hins vegar verður ekki nægilega skýrlega lesið í það hvað þarna býr að baki, hver meining ríkisstjórnarinnar er með þeirri yfirlýsingu sem þarna fylgir og lýtur að þeim tveimur efnisatriðum sem ég hef nefnt. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar um þessa tvo málaflokka þýði ekki alveg örugglega fyrirheit um að húshitunarkostnaður á svokölluðum köldum svæðum verði lækkaður og það gerist strax á þessu ári.

Í öðru lagi: Er þetta ekki alveg örugglega líka fyrirheit um að flutningskostnaður verði jafnaður til að tryggja samkeppnishæfni landshlutanna? Er það þá ekki svo að til þess að það gagnist þurfi það að gerast mjög fljótt? Ég trúi því ekki að gerð hafi verið tilraun til að setja á blað eitthvert merkingarlaust orðagjálfur eða falleg orð. Ég trúi því að þetta sé örugglega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka húshitunarkostnað og jafna flutningskostnað á þessu ári. Eða hvenær má búast við því að við sjáum afrakstur af þessum yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar?