139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að enginn ætti að vera áskrifandi að peningum áratugum saman í krafti lögbundinnar einokunar, sama hversu gott málefnið er. Ég tel að það sé rétt að endurskoða úthlutun á tekjum vegna Lottósins, t.d. á fimm ára fresti. Þá er ég ekki endilega að tala um róttæka uppstokkun á öllu kerfinu, heldur einfaldlega endurskoðun. Hefur eitthvað breyst? Eru einhverjir aðrir sem þurfa á þessu fé að halda?

Féð rennur núna sannarlega til góðra mála, en þar með er ekki sagt að ekki séu önnur verkefni verðug þess að hljóta fé úr þessum sjóðum. Mér finnst svigrúm til að fleiri geti notið góðs af þessu fé og nefni ég sérstaklega æskulýðsstarf sem nýtur ekki styrks. Þar eru mörg félög sem ekki geta öll gengið í slíka sjóði en eiga erfitt uppdráttar sem og menning og listir, eins og hér hefur verið nefnt.