139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka það sem ég áður sagði um þann skýra greinarmun sem ég geri á Lottóinu annars vegar og spilakössunum hins vegar, (Gripið fram í.) það er skýr munur þar á. (JónG: Gerirðu greinarmun á því?) Við skulum taka þá umræðu til hliðar á eftir.

Síðan varðandi það að ekki verði rætt við hlutaðeigandi aðila, að sjálfsögðu verður það gert. Starfshópurinn mun að sjálfsögðu gera það.

Eitt enn vil ég nefna um loforðin. Ég vék sérstaklega að Öryrkjabandalagi Íslands, en ég vék einnig að því að ég hefði að sjálfsögðu fullan skilning á stöðu íþróttahreyfingarinnar og Ungmennasambands Íslands. Við erum að tala um umtalsverða fjármuni, 831,5 milljónir á síðasta ári sem skiptast þannig að rúmlega 319 milljónir fara til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, 274 til Öryrkjabandalagsins og 91,3 milljónir til Ungmennafélags Íslands. Það er talað um að þessir aðilar séu allir vel að þessum fjármunum komnir. Ég tek undir það, en það á að sjálfsögðu líka við um listalífið sem er fjármagnað úr opinberum sjóðum en hefur þurft að reiða sig á stuðning frá fjármálalífinu á undanförnum árum. Nú er sá stuðningur úr sögunni og mér finnst sjálfsagt að taka þessi mál til opinnar umræðu. Það er ekkert að því.

Síðan er það óvissan. Hver er að skapa óvissu? (Gripið fram í.) Ekki er ég að skapa neina óvissu. Ég hef lýst því yfir að til 1. janúar 2019 verði engin breyting gerð. Ég er að segja að við ætlum að setja niður starfshóp til að skoða þessi mál. Er það bannað? Eru menn svo mikið íhald að þeir þori ekki einu sinni að ræða hlutina? (JónG: Þú ert að …) Ég er ekki að skapa óvissu (Forseti hringir.) en hv. þingmaður og ýmsir hér eru að reyna að slá sig til riddara (Gripið fram í: Þetta er …) á vinsælu máli (Gripið fram í: Þetta er billegt.) og bera mér á brýn að ég sé að skapa óvissu (Forseti hringir.) sem ég er ekki að gera. Það þarf enginn að vera í nokkurri óvissu um þetta mál, það verður engu haggað hér til 2019 (Forseti hringir.) en við ætlum að leyfa okkur þann munað að ræða hlutina.