139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Rétt skal vera rétt. Menntamálanefnd breytti Fjölmiðlastofu í fjölmiðlanefnd. Hóll eða hæð, það skiptir ekki öllu máli. Mér finnst þetta vera sama málið, bara með nýju nafni. Gagnrýni okkar sjálfstæðismanna heldur eftir sem áður. Það er verið að koma ákveðnu stjórnsýslulegu batteríi á laggirnar sem við erum einfaldlega á móti.

Hv. þingmaður talaði um að tekið hefði verið á mjög mörgum nýjum málum. Ég sé ekki stoð fyrir svo mörgum nýjum málum. Það var eðlilegt að tekið væri á ritstjórnarlegu sjálfstæði, að enn frekar yrði hnykkt á því í ljósi hrunsins, en það er bara örlítil viðbót við það sem lá fyrir. Er verið að taka á eignarhaldinu eins og ég hef komið inn á? Nei. Er verið að taka á samkeppnismálunum sem Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað fett fingur út í? Nei. Er verið að taka á auglýsingamálum Ríkisútvarpsins? Nei. (Gripið fram í: Jú.) Allt hitt var nokkurn veginn tilbúið. Þess vegna spyr ég, eðlilega: Hvað hafa menn verið að gera þessi tvö ár ef ekki er meira kjöt á beinunum en raun ber vitni?